Íbúar við Eikarlund hafa áhyggjur vegna framkvæmda við Daggarlund
Vitnað er í frétt Vikudags frá 14. júlí sl. í bréfinu, þar sem fram kemur að framkvæmdir séu að hefjast við vegalögn og lagningu fráveitu þrátt fyrir að aðeins einni lóð af 16 hafi verið úthlutað. "Okkur finnst óskynsamlegt að farið skuli af stað í þessar framkvæmdir þrátt fyrir afar litla eftirspurn eftir lóðum á svæðinu. Við teljum að fjármunum bæjarins verði betur varið til annarra framkvæmda, þar sem nóg framboð virðist vera á lóðum t.d. í Naustahverfi þar sem hálfbyggð hús og auðar lóðir blasa víða við. Það hlýtur að vera affærasælast að klára að byggja þau svæði sem þegar eru í uppbyggingu vegna kostnaðar við vegalagnir, frárennsli o.fl. fremur en að hefja nýjar framkvæmdir, " segir í bréfi íbúanna við Eikarlund.
Þeir benda jafnfram á að þar sem svo lítil eftirspurn hefur verið eftir lóðum við götuna sé líklegt að Daggarlundur verði byggingarsvæði í langan tíma - jafnvel árum saman - með öllum þeim óþægindum sem það veldur íbúum sem fyrir eru á svæðinu, þ.e. moldryki, skít og hávaða frá vinnuvélum. "Við förum því fram á að byggingar verði ekki leyfðar á svæðinu fyrr en ljóst er að allt svæðið verði byggt í samfellu þannig að byggingartíma ljúki innan viðunandi tímamarka og íbúar þurfi ekki að búa við moldryk, skít og hávaða árum saman," segir í bréfinu.
Íbúarnir við Eikarlund hafa jafnframt af því áhyggjur að viðbótarbyggð á þessu svæði geti valdið sigi á lóðum og húsum sem fyrir eru og meðfylgjandi skaða. "Við förum því fram á að hæðarpunktar verði teknir á lóðum og húsum sem fyrir eru á svæðinu næst væntanlegu hverfi og fylgst verði nákvæmlega með breytingum sem hugsanlega geta orðið við framkvæmdir," segir ennfremur í bréfi íbúanna við Eikarlund.