Íbúar í Innbænum uggandi og telja að sér vegið í strætómálum

Mynd/Þröstur Ernir.
Mynd/Þröstur Ernir.

Fulltrúar í hverfisnefnd Brekku og Innbæjar á Akureyri telja ekki ásættanlegt að Innbærinn sé eingöngu tengdur nýju leiðakerfi með pöntunarþjónustu. Mikilvægt sé að allir íbúar skólahverfisins hafi fullan aðgang að beinum leiðum í sinn hverfisskóla. Nýtt leiðarkerfi strætó á Akureyri var nýlega kynnt.

Í fundargerð hverfisráðsins segir að röng skilaboð séu send til íbúa með því að tryggja ekki almennt aðgengi að reglulegum ferðum strax í upphafi.

„Skólabíll í Brekkuskóla var lagður niður í haust og íbúum send þau skilaboð að góð tenging væri með Strætó við grunn- og framhaldsskóla. Nýtt leiðakerfi verður afturför að þessu leyti fyrir íbúa Innbæjar, sem eru nú þegar uggandi og telja að sér vegið. Best væri að leiðrétta þessa mismunun strax með almennum hætti, en ekki sérlausnum sem auka enn frekar á þá tilfinningu að hverfið sé til vandræða,“ segir í fundargerðinni.

Þá gerir nefndin athugasemd við að ekki sé gert ráð fyrir tengingu við flugvöll í nýju leiðakerfi. „Teljum við það skammsýni og ekki gert með hagsmuni bæjarbúa að leiðarljósi. T.d. vantar tengingu við Hamra og Kjarnaskóg. Fjölbreytt starf er á svæðinu og ekki ætti að þurfa að treysta á einkabílinn eða hjólið til að fá að njóta útivistar þar.“


Nýjast