Íbúar á eyrinni rötuðu ekki heim til sín

Gísli Ólafsson f.v. yfirlögregluþjónn sest inn í bíl hjá Stefáni Stefánssyni eftir að allir höfðu fæ…
Gísli Ólafsson f.v. yfirlögregluþjónn sest inn í bíl hjá Stefáni Stefánssyni eftir að allir höfðu fært sig yfir til hægri.

Ólafur Ásgeirsson fyrrverandi yfirlögregluþjónn á Akureyri skrifaði athyglisverða grein í Vikudag í síðustu viku, þar sem hann fer yfir aðdraganda þess að Íslendingar skiptu úr vinstri umferð yfir í hægri umferð á H daginn 26. maí 1968. “Fyrir Akureyri var gefið út sérstakt umferðarkort, en það var gert  vegna þess að einstefna var sett á flestar íbúðargötur á eyrinni sem áður höfðu haft umferð í báðar áttir þrátt fyrir að vera þröngar.  Margir íbúar á eyrinni hringdu á H-daginn til okkar á lögreglustöðina, sem þá hvorki rötuðu að heiman eða heim og vildu fá upplýsingar um breytta umferð. Breytingin var það róttæk að nauðsynlegt reyndist síðar að liðka aðeins til því upp komu nokkrir gallar á framkvæmdinni eins og hún var uppsett fyrir H daginn. Rúnturinn svokallaði á Akureyri var mjög frægur meðal ökumanna en í vinstri umferðinni var ekið suður Hafnarstræti og norður Skipagötu. Stöðumælar voru við austurhlið Hafnarstrætis eða til vinstri miðað við vinstri umferð og einnig vestan megin nyrst í Skipagötunni. Til að spara það að færa stöðumælana var ákveðið að snúa rúntinum við og aka norður Hafnarstræti og suður Skipagötu eins og gert er í dag en þá pössuðu stöðumælarnir við þá umferð,” Ólafur m.a. í grein sinni, sem finna má hér á vefnum undir aðsendar greinar.

Nýjast