„Við stefnum á að hefja steypuvinnu í mars ef veður og vindar leyfa,“ segir Björgvin Björgvinsson framkvæmdastjóri og einn eigenda félagsins Höfði Development, þróunarfélagsins sem byggir Höfða Lodge hótel við Grenivík. Vinnuaðstaða hefur verið sett upp á gamla malarvellinum þar sem gert er ráð fyrir að starfsmenn dvelji meðan á uppbyggingu hótelsins stendur, en pláss er þar fyrir 16 til 18 manns.
Björgvin segir að jarðvegsvinnu sé að mestu lokið, vegagerð sömuleiðis og búið sé að setja niður vatnstanka á svæðinu. Nú taki steypuvinna við um leið og aðeins fer að vora meira. „Við gerum ráð fyrir að steypa eitthvað fram á sumarið, fram í júlí eða ágúst og vonum að einhver mynd verði komin á svæðið með haustinu,“ segir Björgvin.
Þegar búið verður að steypa húsin upp tekur við innivinna næsta vetur, að innrétta hótelið og því sem fylgir. Hótelið sjálft er um 6 þúsund fermetrar að stærð og þá verður byggð upp starfmannaaðstaða, um eitt þúsund fermetrar auk hesthúss sem verður um 350 fermetrar.