Í kreppunni blómstar handverk og hönnun

Verið er að leggja lokahönd á undirbúning Handverkshátíðar 2011 sem fram fer dagana 5. - 8. ágúst nk. í Hrafnagilsskóla í Eyjafjarðarsveit. Fjölbreytnin hefur aldrei verði meiri og sýnir hún glöggt þá miklu grósku sem er í íslensku handverki og hönnun í dag. Af þeim hundrað sýnendum sem taka þátt í ár eru um helmingur nýir aðilar alls staðar af landinu.

 

Þar á meðal má nefna Sápubakaríið, Fjöruperlur, Handverkskompaníið og prjónablaðið Lopi og band sem kemur nú út að nýju eftir margra ára hlé. Fjölbreytt dagskrá er á útisvæðinu með tískusýningum, Hundaræktarfélag Íslands á Norðurlandi verður með kynningu á ýmsum hundategunum, hlutverki þeirra og ræktun og Félag ungra bænda á Norðurlandi býður upp á kálfasýningu, rúning, ungbændakeppni og dráttavélaþraut. Það er fastur liður að bjóða upp á spennandi handverksnámskeið í tengslum við hátíðína og að þessu sinni eru það þær Linda Óladóttir listamaður og Sveina Björk Jóhannesdóttir textílhönnuður sem verða með námskeið í frjálsum útsaum í saumavél, gerð skrautblóma og tauþrykk svo eitthvað sé nefnt. Hátíðin verður opin alla 4 dagana frá klukkan 12-19. Allar nánari upplýsingar um sýnendur og dagskrá hátíðarinnar má finna á http://www.handverkshatid.is/

Nýjast