Í annarlegu ástandi og otaði hníf að fólki

Alls 177 bókanir liggja fyrir í dagbók lögreglu frá föstudagsmorgni og til sunnudagsmorguns. Mynd MÞ…
Alls 177 bókanir liggja fyrir í dagbók lögreglu frá föstudagsmorgni og til sunnudagsmorguns. Mynd MÞÞ

Fjórir hafa gist fangageymslur lögreglu um helgina. Þrír vegna ölvunar og hegðunar sem ekki er til eftirbreytni og einn vegna hótana, ráns, og vopnalagabrots auk brots á lyfjalögum og hótana gegn starfsmönnum lögreglu þar sem hann otaði hnífi að viðskiptavinum og starfsfólki veitingastaðar á Akureyri um miðjan dag í gær. Maðurinn var í annarlegu ástandi, gisti fangageymslur en er nú laus eftir yfirheyrslu.

 

 

Eitt og annað hefur verið á verkefnalista lögreglunnar á Norðurlandi eystra um helgina segir á facebook síðu hennar,  177 bókanir liggja fyrir í dagbók lögreglu frá föstudagsmorgni og til sunnudagsmorguns.

30 umferðarlagabrot eru skráð hjá lögreglunni, mest hraðakstur en einnig akstur gegn einstefnu og öryggisbeltanotkunarleysi, símanotkun, ölvunar og vímuefnaakstur ofl.

Sjúkralið var aðstoðað vegna veikinda fólks í nokkur skipti. Við eigum frábært samstarf við slökkvilið og –sjúkralið með ýmislegt og ef eitthvað er þá styrkist og eykst samstarfið með árunum.

Lögregla ók i nokkrum tilvikum ölvuðum heim sem sáu fótum sínum ekki forráð eftir næturlíf bæjarins sem þó má segja að hafi farið stóráfallalaust fram þó nokkur hiti hafi verið í mannskapnum aðfararnótt sunnudags.

Tilkynnt var á föstudagsmorgun um skemmdarverk á nýbyggingu Krónunnar við Tryggvabraut/Hvannavelli þar sem spreyjað hafði verið á rúður og hurðir. Málið er í rannsókn.

 

Leitað að stúlku sem strauk

 

Aðstoðað var við leit að stúlku sem hafði strokið frá vistheimili á vegum barnaverndar bæði á föstudag og laugardag. Stúlkan fannst í bæði skiptin og var komið á vistheimilið.

Umferðaróhapp varð á gatnamótum Þingvallastrætis og Mýrarvegar aðfararnótt laugardagsins. Einn farþegi úr öðrum bílnum hafði hlotlið lítilsháttar meiðsl en var þó útskrifuð af sjúkraliði á staðnum. Hægt var að aka bifreiðum af staðnum. Annað umferðaróhapp í Þorpinu þegar bifreið og rafmagnshlaupahjól lentu saman. Lítil meiðsl á ökumanni rafhlaupahjólsins, einhverjar skemmdir á bifreiðinni en fór betur en á horfðist.

 

Féll í sprungu í Grjótagjá

 

Slys varð á laugardeginum í Grjótagjá í Mývatnssveit þegar erlendur ferðamaður, kona, féll rúma fjóra metra niður í sprungu og lenti á botni hennar. Hún var allnokkuð slösuð og var flutt á sjúkrahúsið á Akureyri til aðhlynningar. Að björgun hennar komu lögregla, sjúkralið og björgunarsveitin Stefán í Mývatnssveit auk fleiri sem voru á staðnum.

Lögregla hafði afskipti af tveimur mönnum við Bogann í gær vegna gruns um fíkniefnamisferli. Ekki fundust fíkniefni á mönnunum en annar mannanna var með hnúajárn og voru þau haldlögð og maðurinn kærður fyrir vopnalagabrot.

Nú er búið að loka afgreiðslu þjóðskrár á Akureyri og því hefur álag á lögreglu vegna kennitöluumsókna og slíks aukist til muna. Allmargar bókanir um slíkt eru í dagbók lögreglu eftir þessa daga.

 

Kanabislykt í fjölbýlishúsum

 

Aukist hefur að fólk tilkynni um kannabislykt í fjölbýlishúsum, þegar fnykurinn er farinn að verða verulega truflandi og reykur og þó aðallega lykt farin að liðast inn um hurðarföls og glugga og út í sameignir og eru einhverjar bókanir um slíkt eftir helgina. Eins og fólk veit eru kannabisefni ólögleg á íslensku yfirráðasvæði og hafa ber það í huga við slíkar reykingar.

Tilkynnt var um dauðan hval, andarnefju á floti á Eyjafirði í gær. Öllum hlutaðeigandi stofnunum sk.verklagi var gert viðvart um þetta. Andarnefjan hafði verið orðin ansi slök í gær mv. tilkynninguna sem kom frá hvalaskoðunarfyrirtæki. Hafði síðan ekki haft þetta af og var á floti suðvestan við Svalbarðseyri þegar tilkynningin barst.

Lögregla viðhafði að auki við öll verkefni sem upp komu, öflugt eftirlit með umferð bæði á þjóðvegum og í bæjum og fjöldi ökumanna stöðvaðir við það eftirlit.

 


Athugasemdir

Nýjast