Hvernig getur okkur liðið betur í byggingum?

Óli Þór Jónsson.
Óli Þór Jónsson.

Við eyðum um 90% af tíma okkar innandyra og skiptir því góð innivist í byggingum miklu máli fyrir heilsu og líðan. Hvaða þættir eru það sem skipta máli og hvað getum við gert til þess að okkur líði betur? Við hvaða aðstæður verða rakaskemmdir og hvernig getum við spornað við slíku?

Þetta er meðal umfjöllunarefnis EFLU-þings sem fer fram í Menningarhúsinu Hofi 7. júní næstkomandi.

Innivist er samnefnari yfir marga samverkandi þætti bygginga s.s. loftgæði, efnisval, raka, hljóðvist, lýsingu og fleira sem hefur áhrif á líðan fólks. Starfsmenn EFLU verkfræðistofu munu miðla þekkingu sinni og reynslu á opnu málþingi en fyrirtækið hefur veitt alhliða ráðgjöf varðandi innivist bygginga um langt skeið.

Fræða og miðla þekkingu

„Sýnt hefur verið fram á tengsl innivistar á vinnustöðum við frammistöðu og líðan starfsmanna og góð innivist bætir lífsgæði. Það er því afar mikilvægt að huga vel að þessum þáttum í öllum byggingum, í fyrirtækjum eða á heimilum fólks. Við viljum vekja fólk, bæði fagaðila og almenning, til umhugsunar um málefnið og benda á leiðir sem færar eru til að bæta innivist. Það á bæði við um þá aðila sem koma að hönnun og framkvæmdum bygginga en ekki síður hinn almenna húseiganda. Okkar markmið er að miðla þekkingu og skapa umræður um málefnið,“ segir Óli Þór Jónsson, vélaverkfræðingur hjá EFLU á Norðurlandi en hann starfar við ráðgjöf á sviði loftræsingar og er einn af fjórum starfsmönnum sem halda erindi á EFLU-þingi.

Dagskrá þingsins:

Loftskipti og loftræsing í byggingum: Hvað er góð innivist og hvernig má auka gæði loftræsingar í byggingum.
Óli Þór Jónsson, vélaverkfræðingur

Innivist, rakaskemmdir og heilsa: Hverjar eru helstu áskoranir rakaskemmda í húsum. Við hvaða aðstæður myndast mygla og hvað er hægt að gera til að draga úr áhættunni?
Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir, líffræðingur

Hljóðvist og áhrif á líðan: Hljóðeinangrun, góð hljóðvist og áhrif á líðan fólks. Rætt verður um opin vinnurými, kosti þess og galla og hvernig draga má úr hávaða í byggingum.
Ólafur Daníelsson, hljóðvistarsérfræðingur

Getur góð lýsing skapað verðmæti fyrir fyrirtæki?: Hver er munurinn á góðri og slæmri lýsingu og hvaða áhrif hefur lýsing á fólk. Hvernig sköpum við gott vinnuumhverfi með vandaðri lýsingu?
Kristján Kristjánsson, lýsingarhönnuður

Allir velkomnir. Nauðsynlegt er að skrá sig á vef EFLU: efla.is/vidburdir

 

Nýjast