Hverfisnefnd Oddeyrar er fullskipuð og vel virk
Erlendur Steinar Friðriksson formaður hverfisnefndar Oddeyrar á Akureyri hefur sent athugasemd til Vikudags fyrir hönd nefndarinnar, vegna fréttar hér að neðan frá því í morgun, um fund stjórnsýslunefndar með þremur hverfisnefndum bæjarins. Af lestri fréttarinnar megi skilja að hverfisnefnd Oddeyrar sé óvirk þar sem ekki hafi fengist fólk í nefndina. Það sé ekki rétt, nefndin sé fullskipuð og vel virk.
Þá kemur fram að fulltrúi hverfisnefndar Oddeyrar hafi ekki mætt á umræddan fund með stjórnsýslunefnd. Þar hafi einfaldlega verið um forföll á síðustu stundu að ræða og reyndist ekki tími til að boða varamann í staðinn. Hverfisnefndin hefur haldið þrjá útifundi í haust, þar sem farið er skipulega um hverfið og staða í skipulags- og umhverfismálum metin. Niðurstöðurnar verða teknar saman í kynningu er haldin verður á aðalfundi hverfisnefndar - vonandi síðar í haust. Niðurstaða þessarar vinnu verður einnig send þeim fulltrúum Akureyrarbæjar sem það varðar. Þetta er framhald metnaðarfullrar úttektar er fyrri hverfisnefnd vann fyrir nokkrum árum. Einnig er í vinnslu erindi um snjómokstur og umferðarmál á Eyrinni - þar er safnað saman ábendingum til bæjaryfirvalda um ýmist það er betur má fara í málaflokknum.
Þá vill hverfisnefnd Oddeyrar vekja athygli á fésbókarsíðu nefndarinnar - þangað eru allir íbúar og velunnarar Oddeyrarinnar velkomnir. https://www.facebook.com/groups/oddeyrin/
Næsti "úti"- fundur er n.k. mánudag kl. 17:00 og eru allir velkomnir.
Á Akureyri eru skráðar sjö hverfisnefndir og auk þess eru hverfisráð í Hrísey og Grímsey. Af þessum sjö hverfisnefndum á Akureyri eru þrjár óvirkar, þar sem ekki hefur fengist fólk til starfa í þeim, samkvæmt því sem fram kemur á vef Akureyrarbæjar. Um er að ræða hverfisnefndir Síðuhverfis, Giljahverfis og Brekku og Innbæjar.