Hvatt til tillitssemi, þolinmæði og kurteisi í umferðinni
Á ýmsum stöðum má reikna með einhverjum töfum á mestu álagstímum, ekki síst í nánd við skipulagðar stórsamkomur. Til dæmis má reikna með mikilli umferð til og frá Siglufirði og líklegt að einhverjar tafir geti orðið við og í Stráka- og Múlagöngum, sem bæði eru einbreið með útskotum til mætinga. Það sama á reyndar við um næstu helgi þar á eftir, þegar samtímis verður Fiskidagurinn mikli á Dalvík, Pæjumótið í Fjallabyggð og Króksmótið á Sauðárkróki.
Á þessum slóðum eru vegfarendur sérstaklega hvattir til að sýna varkárni og tillitsemi. Hugsanlega mun lögregla grípa til sérstakrar umferðarstjórnunar um þessi jarðgöng til að koma í veg fyrir umferðarteppur, en reiknað er að mesti álagstíminn verði milli kl. 13:00 og 19:00, eins og reyndar á við um þjóðvegakerfið almennt.