Hvatningar- og átaksverkefnið Lífshlaupið að hefjast

Skólanefnd Akureyrar hvetur grunnskóla bæjarins til þátttöku í hvatningar- og átaksverkefninu Lífshlaupið, sem hefst formlega á morgun miðvikudag. Lífshlaupið er verkefni á vegum ÍSÍ sem höfðar til allra landsmanna.  

Landsmenn eru hvattir til þess að huga að sinni daglegu hreyfingu og auka hana eins og kostur er þ.e. í frítíma, heimilisverkum, vinnu, skóla og við val á ferðamáta. Það er í samræmi við ráðleggingar Lýðheilsustöðvar um hreyfingu sem eru í fyrsta sinn gefnar út í ítarlegri útgáfu, í upphafi árs 2008. Börnum og unglingum er ráðlagt að hreyfa sig a.m.k. 60 mínútur á dag og fullorðnum í minnst 30 mínútur á dag. Inn á vef Lífshlaupsins er hægt að velja um þrjár leiðir. Ef þú ert 16 ára og eldri getur þú tekið þátt í vinnustaðakeppni. Ef þú ert 15 ára og yngri getur þú tekið þátt í hvatningarverkefni fyrir grunnskóla. Allir geta tekið þátt í einstaklingskeppni þar sem þátttakendur geta skráð niður sína daglegu hreyfingu allt árið.

Skrá má alla hreyfingu niður en hún þarf að ná minnst 30 mínútum samtals hjá fullorðnum og minnst 60 mínútur samtals hjá börnum og unglingum til að fá dag skráðan. Tímanum má skipta upp í nokkur styttri tímabil yfir daginn s.s. 10 til 15 mín. í senn. Þegar ákveðnum fjölda daga er náð í einstaklingskeppninni hlýtur viðkomandi viðurkenningu brons (42 dagar), silfur (84 dagar) eða gullmerki (252 dagar). Í hvatningarleiknum eru grunnskólanemendur hvattir til þess að ná að hreyfa sig í 11 daga í samræmi við ráðleggingar um hreyfingu. Í vinnustaðakeppninni er hugmyndafræðin þ.e. flokkaskipting og útreikningar þeir sömu og eru í fyrirtækjakeppninni Hjólað í vinnuna. Þar sem fjöldi þátttakenda er deilt með heildarfjölda starfsmanna á vinnustaðnum, nema nú er keppt um fjölda daga og mínútna.

Samstarfsaðilar ÍSÍ eru heilbrigðisráðuneyti, menntamálaráðuneyti, Lýðheilsustöð, Skýrr, Rás 2 og Ávaxtabíllinn. Vinnustaðir, skólar og einstaklingar eru hvattir til að taka þátt og nota þannig tækifærið til að efla líkama og sál með því að hreyfa sig daglega.

Nýjast