Hvatning til nýrra bæjarfulltrúa

Ragnar Sverrisson kaupmaður
Ragnar Sverrisson kaupmaður

Nú dregur að því að Akureyringar gangi að kjörborðinu góða og kjósi fulltrúa til bæjarstjórnar næstu fjögur árin.  Mikil endurnýjun er framundan því margir núverandi bæjarfulltrúar gefa ekki kost á sér að þessu sinni. Nýtt og ferskt fólk kemur því í þetta stýrikerfi okkar bæjarbúa og er þeim óskað velfarnaðar í  vandasömu starfi.  Rétt er þó að vara þetta góða fólk við þeirri hættu að ganga ósjálfrátt í fótspor þeirra sem fyrir eru í bæjarstjórn og hafa ekki eðlilegt samband við bæjarbúa heldur ákveða allt innan sinna raða í lokuðu rými án nokkurrar áreitni. Vissulega fylgja slíkri einangrun frá bæjarbúum töluverð þægindi því mannleg samskipti geta verið vandasöm og flókin og ekki á allra færi. Samt sem áður vona ég innilega að þau sem nú koma ný í bæjarstjórn - hvar í flokki sem þau standa - vilji raunverulega rækta samband sitt við bæjarbúa enda þótt ekki hafi verið talin ástæða til þess af hálfu núverandi bæjarfulltrúa síðustu misseri eins og ég og fleiri hafa vakið opinbera athygli á.

 

Nýtt fólk hristir vonandi slyðruorðið af  bæjarstjórninni að þessu leyti og byggir upp raunverulegt íbúalýðræði með bæjarbúum eins og var fyrir liðið kjörtímabil.  Bærinn okkar á það skilið enda tryggir virkt íbúalýðræði ákvarðanir sem íbúar eru ánægðir með, kraft og eldmóð til að koma þeim í framkvæmd og afrakstur sem stuðlar að vistvænum og fögrum bæ með fjölbreyttu og menningarlegu mannlífi.

 

Ragnar Sverrisson

 


Athugasemdir

Nýjast