Hvar eru peningarnir, Jóhanna Sigurðardóttir?
Hægri grænir, flokkur fólksins harmar þann frest sem sem hefur orðið á endurgreiðslu vegna ólöglegra gengislána til íslenskra heimila. Nú eru 8 vikur liðnar síðan gengislánadómur féll í Hæstarétti og ekki 1 króna hefur verið borguð til baka. Þetta kemur fram í ályktun frá flokknum, undir yfirskriftinni: Hvar eru peningarnir, Jóhanna Sigurðardóttir? Þar segir ennfremur: Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra sagði í aðsendri grein í Fréttablaðið þann 17. febrúar síðastliðinn að: Eitt helsta viðfangsefni ríkisstjórnar og Alþingis allt frá hruni hefur verið að leita leiða til að verja heimili landsins fyrir þeim skelfilegu afleiðingum sem hrunið hafði í för með sér fyrir íslenskt efnahagslíf. Ekkert er til í þessari staðhæfingu, og allar lausnir ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttir á skuldavanda heimilanna hafa verið eitt klúður og aðeins 650 heimilum hefur verið bjargað með 110% leiðinni. Stærstur hluti afskriftanna féll öðrum í skaut en þeim sem þurftu á hjálp að halda. Meira en 40.000 heimili eiga í fjárhagsvanda samkvæmt opinberum tölum.
Jóhanna sagði einnig: Engu að síður er óhætt að fullyrða að aldrei fyrr hafa stjórnvöld staðið fyrir jafn umfangsmiklum og víðtækum aðgerðum til að koma til móts við skuldug heimili. Hvernig getur forsætisráðherra haldið þessu fram, les hún ekki blöðin eða horfir á sjónvarp, er öll viskan búin til í fílabeinsturni Stjórnarráðsins. Í þúsund sinnum stærra samfélagi (BNA) kláruðu stjórnvöld úrlausn skuldavandans strax haustið 2008. Hægri grænir, flokkur fólksins taka mið af þeim lausnum í tillögum sínum við að leiðrétta þann vanda sem verðtryggð húsnæðislán hafa skapað. Stjórnvöld ættu að kynna sér þessar lausnir. Ríkisstjórnarfundir skila engu þótt standi sólarhringum saman ef engar hugmyndir af lausnum koma fram.
Jóhanna virðist gera allt sem í hennar valdi stendur til þess að klekkja á íslenskum heimilum og er fyrsti forsætisráðherrann í lýðveldissögunni sem hefur sett afturvirk lög til höfuðs heimilum landsmanna, en lögin byggðu á því að reikna ætti lægstu vexti Seðlabankans í stað hinna erlendu vaxta allt frá upphafi lántöku. Með þessu tók ríkisstjórnin sér stöðu með fjármagnseigendum gegn heimilunum. Hæstaréttardómurinn sem féll um miðjan febrúar sagði hins vegar að ekki væri heimilt að krefjast hærri vaxta, og því Jóhönnu lögin ógild. Hægri grænir hvetja Jóhönnu til þess að bretta upp ermarnar, standa í lappirnar og þrýsta á bankana til að borga strax til baka þá ólögmætu okurvexti sem þeir þeir veittu sjálfum sér, teknir ófrjálsri hendi á kostnað heimilanna með hjálp ríkisstjórnarinnar. Hvar eru peningarnir, Jóhanna Sigurðardóttir, segir ennfremur í ályktuninni.