Hvalabærinn Húsavík til umfjöllunar í Mexíkó

Huld Hafliðadóttir verkefnastjóri Hvalasafnsins á Húsavík heldur utan til Mexíkó á vegum safnsins og Ransóknarseturs Háskóla Íslands. Þar mun hún taka þátt í stórri alþjóðlegri ráðstefnu um verndarsvæði sjávarspendýra. Ráðstefnan fer fram í borginni Puerto Vallarta á vesturströnd Mexíkó, hefst á sunnudag og stendur yfir til fimmtudags 17. nóvember.
Á ráðstefnunni verður lögð áhersla á hlutverk samstarfsverkefna og útfærslur er varða stjórnun og eftirlit með verndarsvæðum í sjó þar sem sjávarspendýr halda sig.
Huld mun flytja erindi á miðvikudag í næstu viku þar sem hún fjallar um Hvalasafnið og þróunina í hvalatúrisma á Húsavík s.l. 20 ár. Allt frá því að Húsavík var lítill útgerðarbær yfir í það að vera einn af eftirsóknaverðustu hvalaskoðunarstöðum í heimi.