Í umræðu um aðskilnað ríkis og kirkju undanfarið hefur lítið verið rætt um hvað aðskilnaður í raun og veru
þýðir. Bent hefur verið á að við aðskilnað þyrfti ríkið að skila aftur jörðum sem kirkjan lét af hendi í
samningi við ríkið og það ferli gæti reynst býsna flókið. Það sem mig langar til að benda á er sú
þjónustuskerðing sem íbúar þessa lands gætu orðið fyrir ef þjóðkirkjan hættir að njóta fjárhagslegs
stuðnings ríkisins. Yfir 90% þjóðarinnar láta jarða sig frá kristinni kirkju. Umtalsverð fækkun presta gæti haft í för
með sér að íbúar Austurlands hefðu aðeins einn prest allt frá Þórshöfn á Langanesi til Hafnar í Hornafirði. Presturinn
gæti búið á Egilsstöðum og þegar andlát yrði á Vopnafirði þyrftu Vopnfirðingar annað hvort að borga prestinum laun fyrir
að koma til Vopnafjarðar til að jarðsyngja þar eða flytja kistuna til Egilsstaða og jarða viðkomandi þar. Íbúar höfuðborgarinnar
væru ekki ánægðir með að þurfa að jarða ástvin sinn á Akranesi af því að presturinn í Grafarvogi væri í
sumarleyfi. Það sem við teljum sjálfsagt í dag og léttir okkur lífið á erfiðum stundum getur orðið mun flóknara og
kostnaðarsamara ef við hugsum dæmið ekki til enda.
Þegar áföll verða er oft boðað til bænastunda í kirkjum landsins og þá streymir fólk til næstu kirkju. Þessi
þjónusta væri hvorki sjálfsögð né auðfengin ef fækkun presta yrði óhjákvæmileg. Þó svo að einhverjum
þeirra sem hafa sagt sig úr þjóðkirkjunni sé sama hvort þeir verði jarðaðir frá kaffisal í stað kirkju af leikmanni en ekki
presti þá hef ég efasemdir um að meirihluti þjóðarinnar velji þann kost. Það er líka vert að benda á að fólk
hefur notið þjónustu kirkjunnar hvort sem það hefur tilheyrt henni eða ekki. Í umræðu sem þessari þarf að skoða málið
frá öllum hliðum því að skjótráðnar ákvarðanir koma okkur í koll.
Höfundur er frambjóðandi til stjórnlagaþings nr. 7572.