Hvað hyggjast Þingeyingar gera í sínum framhaldsskólamálum?

Ljósmynd: laugar.is
Ljósmynd: laugar.is

Í skólaslitaræðu við brautskráningu nýstúdenta frá Framhaldsskólanum á Laugum á dögunum, vék skólameistarinn Sigurbjörn Árni Arngrímsson að stöðu framhaldsskólanna og framhaldsskóladeilda á svæðinu og ljóst að þar er að ýmsu að hyggja.

Skólinn á Laugum starfrækir framhaldsskóladeild á Þórshöfn þar sem nemendur geta stundað nám nálægt heimilum sínum. Þessi deild er rekin í samstarfi við Þekkingarnet Þingeyinga og sveitarfélagið Langanesbyggð og gengur reksturinn og samstarfið vel. Sams konar deild var rekin á Vopnafirði í samvinnu við Vopnafjarðarhrepp og Austurbrú og þar hefur líka allt samstarf gengið vel.

„Þessi útibú eru mikilvæg vegna þess að þar geta unglingar stundað nám í heimabyggð og með minni tilkostnaði en ella. Hins vegar hefur nemendum í þeim aðeins fækkað og ljóst að skólinn mun ekki getað rekið svona deildir, standi hugur nemenda og foreldra ekki til þess að stunda nám í heimabyggð. Því er mikilvægt að allir heimamenn styðji við svona sprotastarfssemi að bestu getu.” Sagði Sigurbjörn Árni og bætti við að það sama ætti í raun við um Laugaskóla sjálfan, það er, stuðningur heimamanna væri nauðsynlegur.

„Það er ekki sjálfgefið að skólahald verði á Laugum um aldur og ævi þrátt fyrir að það hafi verið hér lengi. Ein leið til að styðja við skólann er sú hugmynd að sveitarfélögin Þingeyjarsveit og Skútustaðahreppur ættu að sameinast um rekstur unglingadeildar grunnskólanna á Laugum í samvinnu við Laugaskóla. Ég hugsa reyndar að sveitastjórnirnar og þá væntanlega meirihluti íbúa deili ekki þessari sýn með mér. Enda er hún kannski hugsuð út frá hagsmunum Laugaskóla, þó svo að ég haldi að hagsmunir Laugaskóla og sveitarfélaganna hljóti óneitanlega að fara saman,” sagði Sigurbjörn Árni. /JS

Nánar er fjallað um þetta í prentútgáfu Skarps.

- Skarpur, 25. maí 2017.


Athugasemdir

Nýjast