Hvað er L-listinn?

Oddur Helgi Halldórsson/mynd MÞÞ
Oddur Helgi Halldórsson/mynd MÞÞ

L-listinn er hópur áhugafólks á Akureyri, sem vill vinna að framgangi og þróun í bænum sínum. Við buðum fyrst fram til bæjarstjórnar árið 1998 og höfum átt fulltrúa í bæjarstjórn síðan. Nú erum við með eldri samtökum, aðeins Framsókn og Sjálfstæðisflokkur eru eldri.

Ef þú hefur áhuga á að starfa að velferð bæjarins og íbúa hans en vilt ekki binda þig stjórnmálaflokki, komdu þá til okkar.  Við höfum pláss fyrir alla.

Í kosningunum 2010 fengum við 45% atkvæða og 6 af 11 bæjarfulltrúum. Þetta þýddi líka að við fengum þrjá fulltrúa og þrjá til vara í hverja fastanefnd bæjarins, í stjórn Norðurorku og í stjórn Hafnarsamlagsins.  Reyndar gáfum við minnihlutanum í bæjarstjórn eftir sæti í tveimur nefndum til að auðvelda honum að jafna sína fulltrúatölu og gáfum þannig eftir oddamanninn í þessum nefndum. L-listinn á um 40 sæti í nefndum og ráðum og jafnmarga varamenn, auk ýmissa annarra nefnda og vinnuhópa. 

Bæjarstjóri allra bæjarbúa

Hvað þýðir að hafa meirihluta í bæjarstjórn?  Jú, það þýðir að við gátum komið öllum þeim málum í gegnum bæjarstjórn sem við vildum,sama hvað öðrum fyndist. Við höfum þó ekki starfað þannig. Við höfum reynt eftir fremsta megni að ná meiri sátt um málin og settum okkur strax það markmið að mál væru afgreidd með stuðningi að minnsta kosti 7-8 bæjarfulltrúa. Þetta hefur tekist í langflestum tilfellum. Við ákváðum strax að reyna að hafa sem best samstarf við minnihlutann, því þeir eru að sjálfsögðu fulltrúar bæjarbúa líka.  Við ákváðum líka að ráða bæjarstjóra í stað þess að hann kæmi úr okkar röðum, því við viljum að bæjarstjórinn sé bæjarstjóri allra Akureyringa en ekki bara þeirra sem kusu okkur. Við vorum heppin með val og þetta hefur tekist vel því  Eiríkur Björn er sannarlega bæjarstjóri allra.

Ábyrgð

Við einsettum okkur líka strax að auglýsa allar stöður hjá bænum og hefur það gengið vel. Það sem af er kjörtímabilinu erum við búin að ráða í nokkrar stjórnunarstöður og það hefur verið gert að undangenginni  auglýsingu. Vel hefur tekist til með ráðningarnar og við verið heppin með þá aðila sem ráðnir hafa verið, enda hefur verið horft til þeirra kosta, menntunar og reynslu en ekki hvar í flokki þessir aðilar hafa verið.Við vorum flest reynslulítil í stjórnmálum og vissum að miklum völdum fylgir mikil ábyrgð. Því fengum við í upphafi kjörtímabilsins gott fólk úr Háskólanum á Akureyri til að taka okkur bæjarfulltrúa og formenn nefnda L-listans á siðfræðinámskeið. Það var mjög fræðandi og gagnlegt. Þetta er eitt af því sem ætti að vera sjálfsagður hlutur eftir hverjar kosningar.

Ekki spurt um flokksskirteini

Eitt að aðalsmerkjum L-listans er að hann er óháður þeim flokkum sem bjóða fram til Alþingis. Svona höfum við viljað hafa það í þeim tilgangi að geta alltaf haft hagsmuni Akureyrar að leiðarljósi. Það hefur alveg komið fyrir að okkur hefur fundist vanta tengingu á löggjafaþingið, en oftar er það kostur. Við höfum getað nálgast alla flokka á jafnréttisgrundvelli, hvort sem þeir eru í stjórn eða ekki, þannig að við höfum haft jafnan aðgang, sama hvaða flokkar eru í ríkisstjórn. Annað sem gerir okkur frábrugðin hinum hefðbundnu stjórnmálaflokkum er að það er enginn skráður í L-listann. Við höldum ekki félagatal. Því getur fólk komið og starfað með okkur, án eftirmála, en hversu oft höfum við heyrt sögur af því að erfiðara hefur gengið fyrir fólk að segja sig úr flokkum en ganga í þá. Því hefur starfað með okkur fólk sem skráð hefur verið í aðra stjórnmálaflokka og jafnvel verið á lista fyrir Alþingiskosningar. Okkur er alveg sama. Við spyrjum engan um flokksskírteini.

Það kom berlega í ljós hversu gott er að vera óháður þegar við vorum að vinna að því að koma gerð Vaðlaheiðargangna  af stað. Ég fullyrði að ef ekki hefði notið stuðnings Akureyrarbæjar og sveitarfélaganna hér í kring, hefði málið aldrei farið í gegnum þingið. Þá skipti máli að vera ekki tengdur við einhvern einn flokk og við hjá L-listanum gátum farið í alla flokka og óskað þeirra stuðnings. Verið til skrafs og ráðagerða án þess að flokkspólitískur stuðningur sæti í vegi fyrir að fólk ynni saman.

Kannanir og úrslit

Reynslan hefur sýnt að þar sem L-listinn er ekki mikið í fjölmiðlum og fær ekki mikla umfjöllun á milli kosninga komum við yfirleitt ekki vel út í skoðanakönnunum. Þetta hefur þó vanalega breyst þegar nálgast tekur kosningar og fólk fer að huga betur að sveitarstjórnarmálum. Tölur frá 1,5%-3,5% voru ekkert óalgengar hér áður. Við höfum alltaf komið betur út í kosningum. Ég minni á að 20. maí 2010 mældumst við í skoðanakönnun með 24,4% fylgi, en í kosningunum rúmri viku seinna 29. maí, fengum við 45,5% atkvæða og hreinan meirihluta.

Oddur Helgi Halldórsson.

Höfundur er bæjarfulltrúi L-listans, lista fólksins á Akureyri

 

Nýjast