Hvað er framundan í bæjarmálunum?

Hjörleifur Hallgríms
Hjörleifur Hallgríms

Fyrir allnokkru horfði ég á bandarískan sjónvarpsþátt, sem er ekki í frásögur færandi, en þar var m.a. sýnt frá 6 manna velmetinni og velmegandi fjölskyldu, sem borðaði yfirleitt saman kvöldmat og var þá máltíðin ekki af verri endanum, stórsteik og eðalrauðvín með. Undir borðum var mikið rætt og skrafað um hin ýmsu mál í viðkomandi bæjarfélagi og sitt sýndist hverjum eins og vera ber en engar ákvarðanir teknar, þetta var gott eins og það var því fjölskyldan hafði nóg að bíta og brenna og allir undu glaðir við sitt, saddir og glaðir eftir stórsteikurát og rauðvínsþamb. Bæjarbúar þurftu ekkert meira.

Ameríski draumurinn á Akureyri

Kjörtímabilið síðasta hér í bæ með meirihlutann þ.e. L-listann, Samfylkingu og Framsókn skilaði ákaflega litlu, nema þá helst gegndarlausum fjáraustri í gæluverkefni og eins og ég hef áður sagt er útilokað að meirihlutinn hafi skynjað orðið forgangsröð. Mikið á annan milljarð var ausið í gamla Mjólkursamlagið og viðbyggingar þess ásamt með sundlauginni. Tæpar eitt hundrað milljónir voru settar í göngubrú og launahækkun til meðlima Sinfóníuhljómsveitarinnar námu litlum 60% og þetta fóðrað með gömlu klisjunni að meðlimirnir hefðu lent meira og minna á eftir sambærilegum stofnunum. En þá var ekki allt búið því það varð að hygla leikfélaginu um nokkra tugi milljóna, þessu félagi, sem hefur hvað minnst skilið eftir sig í 100 ára sögu Leikfélags Akureyrar. Afrekin eru þvílíkur peningaaustur að hið hálfa væri nóg og lýsir sér þarna best samræðupólitíkin við „matarborðið“.

Hvað gerir nýr/gamall meirihluti?

Það er því ærið verkefni, sem bíður nýja/gamla meirihluta bæjarstjórnar Akureyrar en verst er að framsóknarliðið er þar í fararbroddi, það eina, sem er vant austrinum. Ef á að koma eitthvað vitrænt út úr samstarfinu þarf nýja fólkið heldur betur að láta að sér kveða og láta ekki hanka sig í samræðupólitík, sem ekkert af viti kemur út úr. Enga stórsteik né rauðvínsþamb. Nokkra minnispunkta læt ég hér fljóta með í stuttri samantekt til umhugsunar að minnsta kosti fyrir nýja fólkið í meirihlutanum, sem mér sýnist nokkuð öflugt og hefur a.m.k. helmings vægi á móti bruðlurunum. Sárleg vöntun er á leiguíbúðum hjá bænum og er biðin allt upp í nokkur ár en á sama tíma hamlar skipulagsráð með Framsókn í broddi fylkingar um byggingu fleiri íbúða einmitt í þeirri stærð íbúða, sem sárlegast vantar.

Skipulagsmál eru í þvílíkum ólestri að ekki nema auðmenn fá að byggja án þess að mál þeirra séu sett í grenndarkynningu eins og þeir fátæku þurfa að búa við og er tómt rugl í boði Framsóknar. Verri getur mismunun þegnanna ekki verið enda kærumál á ferðinni. Leikskólamál eru í tómu tjóni og það slæmt ástand að fólk hefur flúið úr bænum með börn sín og aðrir hætt við að flytja í bæinn, enda ekki að furða þegar að leikskóla er lokað að óþörfu og forsvarmaðurinn lagður í einelti og flæmdur í burtu en ekkert er sjáanlegt í staðinn. Þá eru það eldri borgarar, sem algjörlega eru hundsaðir, og dæmi um það er lokun á félagsmiðstöðinni í Víðilundi 22 í allt sumar. Þarna fer fram mikil afþreying fyrir eldri borgara, sem flestir eru hættir að vinna og hafa jafnvel lítið annað gera en t.d. að taka í spil, sem er mjög vinsælt. Þarna tímir meirihlutinn ekki ráða afleysingafók eða að hnika til fríum fyrir annars mjög gott starfsfólk Haft er í flimtingum að ekki sé jafnvel hægt að opna pylsusjoppu vegna rafmagnsleysis í bænum þó vitað sé hvar skórinn kreppir en talið að sé um tóman aulagang að ræða hjá fyrrum meirihluta.

Þá er það stóra málið, flugvöllurinn

Nú hyllir undir að bætt verði úr aðfluginu við norðurenda flugbrautarinnar en þá er flugplanið eftir. Auðvitað hefði bæjarstjórnin strax átt að setja peninga í að klára flugplanið hvort, sem það héti lán eða ekki. Það er rétt hægt að ímynda sér hvers lags lyftistöng það hefði verið fyrir bæjarfélagið og peningarnir skilað sér margfalt aftur í bæinn þó það hefði tekið nokkur ár. Mér er til efs að Listagilið skili nokkuð svipuðu. Það má nefna í sambandi við flugvöllinn og flugplanið að það myndi auðvitað stórauka flugumferð, verða aðgengilegra fyrir fyrir flug erlendis frá, aukinn ferðamannastraumur til Akureyrar og fullt af peningum í bæinn. Fyrirhyggjan er engin við „matarborðið“. Á sama tíma er stjórn Vaðlaheiðarganga að setja óumbeðið tugi milljóna í flutning á efni úr göngunum í flugplanið og vita ekkert hvort það verður endilega borgað.

Gunnar Gíslason boðar hörku

Sjálfstæðismaðurinn Gunnar Gíslason segir málefnasamning meirihlutans mjög rýran og líkist kosningaplaggi. Hann boðar harðari pólitík í bæjarmálunum á Akureyri og ekki veitir af enda ekki ætlunin að stunda neina samræðupólitík eins og tíðkaðist á síðasta kjörtímabili. Svoleiðis pólitík er nefnilega lituð af því, sem gerðist hjá stórfjölskyldunni í Ameríku og ekkert af viti sat eftir. Ég satt að segja hlakka til að fylgast með Gunnari því ekki veitir af að hrista upp í þessari samræðupólitík, sem lítið af viti kemur út úr. Ég treysti honum til slíkra starfa og fylgist spenntur með. Akureyri öll lífsins gæði eins og stendur skírum stöfum. Þvílíkt öfugmæli.

-Hjörleifur Hallgríms


Athugasemdir

Nýjast