Húsavíkurkirkja fær verðskuldaða andlitslyftingu

Húsavíkurkirkja. Mynd/epe
Húsavíkurkirkja. Mynd/epe

Framkvæmdir eru í fullum gangi við Húsavíkurkirkju og safnaðarheimilið Bjarnahús. Það er trésmíðaverkstæðið Val ehf. sem sér um byggingaframkvæmdir en Bæjarprýði sér um lóðaframkvæmdir.

Samkvæmt upplýsingum frá Hollvinasamtökum Húsavíkurkirkju er búið að smíða krossana á þak kirkjunnar og setja þá upp. Unnið er að því að skipta um girði eða járnlista ofan við alla glugga og ryðfrítt sett í staðin. Þá er verið að vinna að því að smíða turnspýrur og skrautlista.

Bætt aðgengi fyrir fatlaða

Bætt aðgengi fyrir fatlaða hefur lengi verið forgangsmál en það er nú í hönnun og mun verða við suðurinngang kirkjunnar. Verið er að bíða eftir samþykki fyrir hönnunina en stefnt er að því  að þeim framkvæmdum  verði lokið í haust. Á sama tíma verður gengið frá lóð og bílastæði fyrir fatlaða austan við kirkju. Munu framkvæmdir við kirkjuna halda áfram í allt sumar.

Bjarnahús er líka að fá andlitslyftingu en Bæjarprýði vinnur um þessar mundir að lóðaframkvæmdum þar sem markmiðið er að gera húsið aðgengilegra og sömuleiðis að tengja það betur við kirkjuna. Einnig er verið að bæta aðgengi fyrir fatlaða. Verið er að helluleggja svæðið frá Garðarsbraut og austur að Ketilsbraut sem verður almenningsleið og jafnvel torg þar sem hægt verður að setjast niður. Þetta er framkvæmd sem kostar um fjórar milljónir. Einnig hefur verið unnið að viðgerðum innan dyra vegna vatnsskaða.

Bjarnahús

Fyrr á þessu ári voru stofnuð Hollvinasamtök Húsavíkurkirkju til að aðstoða við fjármögnun á viðgerðum við og í kringum kirkjuna. En eins og áður hefur verið fjallað um hefur ástand kirkjunnar verið áhyggjuefni og löngu kominn tími á endurbætur.

Hollvinasamtökin settu af stað söfnun og að sögn Sólveigar Mikaelsdóttur, formanns samtakanna hefur söfnunin gengið ágætlega. „Komið er vel á sjöundu milljón inn á söfnunarreikninginn,“ segir hún og bætir við að enn séu að berast styrkir frá hópum, m.a. fermingarbarnaárgöngum.


Athugasemdir

Nýjast