Veitingastaðurinn Naustið hefur verið starfræktur fyrir neðan Bakkann á Húsavík í nokkur ár við vaxandi vinsældir en staðurinn hefur sérhæft sig í ferskum sjávarréttum. En um þessar mundir eru Naustið á leið upp fyrir Bakkann í nýjar höfuðstöðvar sem eru að Ásgarðsvegi 1, í því fornfræga húsi Seli, sem byggt var árið 1931 af Sveinbirni Guðjohnsen og konu hans Hallgerði Eyjólfsdóttur. Sel er sem sagt 85 ára á þessu ári.
Mágkonurnar Elín Kristjánsdóttir og Ingunn Ásta Egilsdóttir hafa festu kaup á Seli af ættingjum Sigurðar heitins Briem, sem átti húsið síðast og bjó þar um árabil. Þær voru meðal stofnenda Naustsins neðan bakkans, en þegar þær misstu húsnæðið neðra fóru þær á stúfana að leita að öðru sem hentaði. „Við leituðum reyndar með logandi ljósi um allan bæ, en það er ekki hlaupið að því að finna húsnæði á Húsavík þessa dagana.“ Segir Elín. En á endanum varð þetta niðurstaðan.
„Þetta er í raun mjög góð staðsetning, bílastæði að baki Sels þegar grunnskólinn er ekki starfandi og einnig við Samkomuhúsið. Svo er húsið hluti af einni elstu, grónustu og fegurstu götu bæjarins, Ásgarðsveginum við Búðarána.“ Elín segir og að ekki sé nákvæmlega hægt að tímasetja opnun Naustsins á nýjum stað, en það verði væntanlega vonandi í sumarbyrjun. „Við byggjum áfram á sjávarréttunum okkar og erum bara afar bjartsýnar. Og það hefur skipt okkur miklu máli hvað fólk, bæjarbúar og fleiri, hafa verið jákvæðir gagnvart þessum áformum og fagnað því að Seli hefur verið fundið nýtt hlutverk.“ JS