Húsasmiðjan hefur sagt upp leigusamningum á Húsavík

Verslun Húsasmiðjunnar á Húsavík. Mynd/epe
Verslun Húsasmiðjunnar á Húsavík. Mynd/epe

Húsasmiðjan  hefur sagt upp leigusamningum sínum á Húsavík en um er að ræða tvo samninga. Annars vegar að húsi verslunarinnar sem er í eigu einkaaðila og hins vegar vöruskemmunnar sem er í eigu Norðurþings. Núverandi samningur rennur því út í desember n.k.


 

Hinrik A. Hjörleifsson Rekstrar og  gæðastjóri Húsasmiðjunnar staðfesti í samtali við Vikublaðið að húsaleigusamningum hafi verið sagt upp en vildi ekki gefa upp hvort Húsasmiðjan væri á förum úr bænum. „Við erum bara að semja við eigandann, hvort við eigum að endurnýja leigusamninginn eða hvort við ætlum ekki að gera það. Það er ekki búið að ákveða neitt með það að versluninni verði lokað. Við vonum bara að það gangi vel að semja,“ segir Hinrik.

Aðspurður  hvort sú sviðsmynd sé möguleg að Húsasmiðjan hætti rekstri búðarinnar segir hann að það sé ekki útilokað. „ Það er bara eins og með aðrar verslanir okkar sem eru með leigusamninga að þegar leigusamningar renna út þá getur það orðið raunin. Þetta er allt opið og ekki nokkur leið að tjá sig um það frekar,“ segir hann.

Á sama tíma og leigusamningar Húsasmiðjunnar á Húsavík renna úr er fyrirhugað að opna nýja verslun við Freyjunes á Akureyri. Flyst þar með starfsemin frá Lónsbakka þar sem hún hefur verið um árabil í nýtt húsnæði í Nesjahverfi. Verslunin verður um 5.000m2 að stærð. Nýja verslunin verður nær miðju Akureyrar og þykir staðsetningin henta betur fyrir smásöluverslun.

/epe


Athugasemdir

Nýjast