Hús vikunnar: Holtagata 5

Víðs vegar um bæinn má finna hin skrautlegustu hús og þar er Brekkan sannarlega ekki undanskilin. Þar er margt skrautlegra glæsihýsa og þeirra á meðal er Holtagata 5. Holtagötu 5 reisti Snorri Pálsson múrarameistari eftir teikningum Stefáns Reykjalín árið 1939. Bygginganefnd veitti Snorra leyfi til byggingar, en var það háð nokkrum skilyrðum þ.á.m. að „reykháfseftirlíking“ yrði felld burt og smávægilegar útlitsbreytingar yrðu gerðar í samráði við byggingarfulltrúa. Líklegt má þó telja,  að hlaðinn turn á austurhlið hússins, sé umrædd reykháfseftirlíking, sem hefur þá fengið að standa.

Holtagata 5  er einlyft steinsteypuhús með aflíðandi einhalla þaki undir háum þakkanti, stölluðum á hliðum. Að framan (austan) er útskot og inngangur í kverkinni á milli og einnig er lágt útskot, geymsla að norðan.  Suðvestan á húsinu er bogadregið útskot og tröppur að inngangi einnig bogadregnar. Einfaldir lóðréttir póstar með opnanlegum þverfögum eru í gluggum og bárujárn á þaki.

Snorri Pálsson, sem byggði húsið, fluttist síðar vestur um haf til Bandaríkjanna, þar sem hann vann við iðn sína um árabil. Holtagata 5 sem mun alla tíð hafa verið einbýlishús, er í einstaklega góðri hirðu og er að mestu óbreytt frá upprunalegri gerð. Það er sérlega skrautlegt og glæst og setur hleðslan, steyptu skrautlínurnar og falski skorsteinninn (sem Bygginganefnd vildi burt) sérstæðan og einstakan svip á húsið.

Lóðin er einnig vel hirt og aðlaðandi, hún er að hluta á klöpp sem kallast skemmtilega á við húsið sjálft og steyptan vegg á lóðarmörkum. Holtagata 5 og lóðin í kring er svo sannarlega til mikillar prýði í umhverfinu. Árið 2015 var unnin viðamikil Húsakönnun fyrir þetta svæði og er húsið metið með varðveislugildi sem hluti af heild og vegna sérstæðrar gerðar. Myndin er tekin þann 9. okt. 2018.

 


Athugasemdir

Nýjast