Hús vikunnar: Hafnarstræti 94; Hamborg

Í síðustu viku vorum við stödd við húsið Aðalstræti 10, löngum kallað Berlín, og þá liggur beinast við að halda til annarrar þýskrar heimsborgar, eða Hamborgar, en svo kallast Hafnarstræti 94. Húsið byggði Jóhannes Þorsteinsson árið 1909, en hann stóð einmitt fyrir byggingu Aðalstrætis 10 eða Berlínar ásamt Sigvalda bróður sínum sjö árum fyrr. Húsið stendur norðvestan megin á mótum Hafnarstrætis og Kaupvangsstrætis (Kaupfélagshorninu valinkunna).

 Hafnarstræti 94 er tvílyft timburhús með valmaþaki, nokkuð sérstakt að lögun með skásneiddum hornum og kvisti upp af hverju þeirra, en auk þeirra er einn kvistur á bakhlið og svalir sem standa á stólpum. Húsið er allt bárujárnsklætt og margskiptir póstar í gluggum, en stórir „verslunargluggar“ á neðri hæð. Húsið er byggt sem verslunarhús og stofnsetti Jóhannes verslunina Hamborg í húsinu og starfrækti hana til dánardægurs 1920. Ekkja hans, Laufey Pálsdóttir og síðar seinni maður hennar, Jón E. Sigurðsson tóku við rekstri verslunarinnar og ráku hana fram á 4. áratuginn. Síðan hafa hinar ýmsu verslanir og þjónustufyrirtæki verið starfrækt á götuhæð; hin síðari ár m.a. Rammagerðin,10-11 verslun  og lengi vel, eða frá 8. áratugnum og fram um aldamót, verslunin Sporthúsið.  Nú er í húsinu  66°Norður verslun. Á efri hæð var lengst af íbúð en síðustu ár hefur hún verið skrifstofurými.

Húsið var einhvern tíma múrhúðað (forskalað) og gluggum breytt og var það farið að láta nokkuð á sjá um 2005 þegar gagngerar endurbætur hófust á húsinu. Þær endurbætur, sem miðuðu að því að færa húsið nærri upprunalegu útliti sínu, tókust frábærlega og er húsið mikil prýði á þessum fjölförnu slóðum í hjarta miðbæjarins. Hafnarstræti 94 var friðað árið 2007. Myndin er tekin þann 2. des. 2018.


Athugasemdir

Nýjast