Hús reist undir kaffihús í Lystigarðinum næsta vetur

„Þetta verður örugglega krefjandi verkefni, en ég er bjartsýnn á að það muni ganga upp," segir Njáll Trausti Friðbertsson en félag hans 1912 veitingar átti hagstæðasta tilboðið í rekstur kaffihúss og minjagripasölu sem reist verður í Lystigarðinum á Akureyri á komandi vetri og opnað næsta vor.  

Í tilefni þess að Akureyrarbær verður 150 ára á næsta ári og Lystigarðurinn 100 ára var á liðnum vetri kynnt hugmynd um að reisa kaffihús í garðinum og töluverður fjöldi greinargerða barst eftir kynningarfundi í vor. Eftir yfirferð þeirra sem og þegar fyrir lá hvaða hugmyndir bjóðendur höfðu varðandi upphæð á leigu reyndist tilboð 1912 veitinga hagstæðast. Kollgáta átti lægsta tilboð í hönnun hússins og segir Njáll Trausti að frumteikningum að því verði skilað inn um miðjan næsta mánuð. Hönnun eigi svo að fullu að vera lokið í október og verkefnið þá jafnframt boðið út.  Unnið verður við bygginguna á komandi vetri og gert ráð fyrir að kaffihúsið verði opnað í maí næsta vor.

Húsið verður um 150 fermetrar að stærð,  á svæði norðan Eyrarlandsstofu og austan Hallarflatar.  Það verður tvískipt, annars vegar veitingasalur sem tekur 30 til 60 manns í sæti og hins vegar kaffihús með 30 til 40 sætum, þannig að allt í allt gæti húsið rúmað 80 til 90 manns.  Njáll segir að stefnan sé að leiga húsið út undir mannfagnaði og veislur yfir vetrarmánuðina og eins sjái hann möguleika á starfsemi í húsinu á þeim tíma, m.a. þar sem mikill fjöldi fólks búi, starfi eða sæki skóla í næsta nágrenni við væntanlegt kaffihús.

Njáll Trausti segist lengi hafa gengið með þá hugmynd í kollinum að í Lystigarðinum ætti að vera aðstaða þar sem gestir geti sest niður og fengið sér kaffisopa.  „Nú er sú hugmynd að verða að veruleika og ég held að þetta geti lífgað mjög upp á garðinn og aukið gestafjöldann," segir hann en að jafnaði sækja um 100 þúsund manns garðinn heim yfir árið.  „Garðurinn er nokkurs konar vin hér í miðjum bænum, bæjarbúum þykir vænt um garðinn og hann skipar ákveðinn sess í hugum þeirra, gestir, einkum erlendir sækjast eftir því að skoða hann.  Kaffihúsið hefur því nokkra sérstöðu," segir Njáll Trausti, sem hlakkar til að takast á við það verkefni að reka veitinga- og minjagripasölu á þessum vinsæla stað.

Nýjast