Njáll Trausti Friðbertsson skrifar
Undirrót þessara skrifa er frétt sem undirritaður las í Fréttablaðinu 15. febrúar síðastliðnum. Fréttin bar yfirskriftina: Engin flýtiframkvæmd án veggjalda. Í fréttinni eru meðal annars sýnd tölfræðileg gögn um tíu hættulegustu vegarkaflana í dreifbýli. Heimildin fyrir þessum gögnum er ársskýrsla slysaskráningar Umferðarstofu árið 2009. Það sem kemur á óvart þegar þessar upplýsingar eru skoðaðar er að hvergi í ársskýrslu Umferðarstofu er litið til þess þáttar hversu mikil umferð liggur á bakvið þessar slysatölur. Með öðrum orðum Umferðarstofa reiknar ekki út slysatíðni mismunandi vegspotta á Íslandi. Vegagerðin hefur hins vegar safnað upplýsingum þar sem slysatíðni er reiknuð með því að nýta upplýsingar um bæði fjölda slysa og umferðarmagn. Þar á bæ er notast við eininguna fjöldi slysa á ekna milljón kílómetra. Með því er hægt að sjá hvar hættulegast er að aka á vegum landsins.
Í fréttinni eru bornir saman þrír vegkaflar með tilliti til fjölda umferðarslysa á árunum 2005 til 2009. Samanburðarkaflarnir eru á Vesturlandsvegi, Suðurlandsvegi og sá hluti þjóðvegar 1 sem liggur um Svalbarðsstrandarhrepp og Víkurskarð. Með tilkomu Vaðlaheiðarganga þá styttist leiðin austur á bóginn um 16 km og vegurinn um Víkurskarð sem er að margra mati helsti farartálminn á milli Akureyrar og Þingeyjarsýslna. Þegar ég las fréttina þótti mér fréttin sérstök að því leiti að einungis var verið að skrifað um fjölda slysa en aldrei minnst á raunverulega slysatíðni. Það er hver er raunveruleg hætta fyrir hvern og einn bílstjóra og farþega hans að lenda í umferðaróhappi. Með því að nýta þau gögn sem eru aðgengileg á heimasíðu vegagerðarinnar fyrir árin 2000-2008 fengust þær niðurstöður sem sjá má í töflunni. Einnig var slysatíðni reiknuð út vegna mögulegra lagningu Húnavallaleiðar (Svínavatnsleiðar) sem töluvert hefur verið í umræðunni. Rétt er að geta þess að útreikningarnir upp úr gögnum vegagerðarinnar eru mínir. Hins vegar er gott að hafa til viðmiðunar að slysatíðni á hringveginum öllum er að meðaltali 1,13 slys á ekna milljón kílómetra.
Slysatíðni þeirra kafla sem hér eru til skoðunar er mest á vegkaflanum um Blönduós eða 1,67 slys á ekna milljón kílómetra. Fyrir hina þrjá vegkaflana sem hér eru til skoðunar er slysatíðnin mun lægri eða á bilinu 0,79-1,04. Gildið er hins vegar 2,01 um norðanverðan Langadal, það er frá Hvammi og norður að Skagastrandarvegi.
Önnur málsgrein 28.gr vegalaga hljómar með eftirfarandi hætti: Ákveða skal legu þjóðvega í skipulagi að fenginni tillögu Vegagerðarinnar að höfðu samráði Vegagerðarinnar og skipulagsyfirvalda. Fallist sveitarfélag ekki á tillögu Vegagerðarinnar skal það rökstyðja það sérstaklega. Þó er sveitarfélagi óheimilt að víkja frá tillögu Vegagerðarinnar ef það leiðir til minna umferðaröryggis en tillagan felur í sér.
Á næstunni mun umhverfisráðherra úrskurða um aðalskipulag Blönduósbæjar og Húnavatnshrepps. Þar á meðal verður úrskurðað um það hvort ráð verði gert fyrir vegstæði Húnavallaleiðar í skipulaginu eða ekki. Því er rétt að benda á þessar tölfræðilegu staðreyndir sem snúa að umferðaröryggi vegna mögulegrar styttingar þjóðvegar eitt í Húnaþingi. Af þessu má ljóst vera að umferðaóhöppum mun stórfækka á þessari leið með tilkomu Húnavallaleiðar.
Vegkaflarnir á hringveginum sem eru bornir saman:
Suðurlandsvegur, Biskupstungnabraut (35) - Þrengslavegur (39), brú. Heildarvegalengd 27,11km.
Vesturlandsvegur, Þingvallavegur (36) - Akrafjallsvegur (51) við Urriðaá. Heildarvegalengd 26,50km.
Vaðlaheiði, Veigastaðavegur (828) - Fnjóskadalsvegur eystri (835). Heildarvegalengd 26,93km
Blönduós, Reykjabraut (724) - Hvammsvegur (7378). Heildarvegalengd 26,95km.
Langidalur, Skagastrandarvegur (74) - Hvammsvegur (7378). Heildarvegalengd 13,26km
Höfundur er varabæjarfulltrúi D-lista á Akureyri.