Þeir bæjarfulltrúar sem Vikublaðið ræddi við eru lítt hrifnir af þeirri hugmynd að færa starfsemi Ráðhússins við Geislagötu í nýja fyrirhugaða byggingu við Gránufélagsgötu 4 sem í daglegu tali er nefnt JMJ-húsið. Eins og blaðið fjallaði um nýverið hefur Ragnar Sverrisson kaupmaður á Akureyri ásamt öðrum eigendum JMJ-hússins látið hanna teikningar af húsinu með stækkun til austurs og vesturs í huga og einnig hækkun í allt að fimm hæðir sem þegar er búið að fá leyfi fyrir. Þannig yrði húsið nálægt 5000 fermetrar.
Sú hugmynd er uppi um að Reginn fasteignafélag kaupi stærsta hluta hússins og bjóði bænum það síðan undir skrifstofurými fyrir Ráðhús bæjarins. Þá hefur forstjóri Regins lýst áhuga á að kaupa núverandi Ráðhús við Geislagötu af bænum, en bæjaryfirvöld hyggja á kostnaðarsamar endurbætur og viðbyggingu við Ráðhúsið.
Halla Björk Reynisdóttir
Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar á Akureyri og oddviti L-listans, segir alltaf gott og áhugavert að ræða nýja möguleika og hugmyndir um uppbyggingu á JMJ-reitnum séu ekki nýjar af nálinni. „En þessi nýja hugmynd um ráðhús á reitnum kom fram í viðtalstíma bæjarfulltrúa og var síðan lögð fram til kynningar í bæjarráði. Við fórum í ítarlega skoðun fyrir tveimur árum á því hvað best væri að gera í stöðunni varðandi húsnæði fyrir skrifstofur bæjarins og niðurstaðan var sú að byggja við núverandi ráðhús og sameina alla stjórnsýslu á einum stað. Sú vinna er hafin og mín skoðun er sú að í grunninn sé heppilegra fyrir bæinn að eiga húsnæðið frekar en að leigja rými af öðrum undir grunnstarfsemi sína. Ég á ekki von á að bæjaryfirvöld breyti fyrri ákvörðun hvað Ráðhúsið varðar,” segir Halla Björk.
Í svipaðan streng tekur Gunnar Gíslason bæjarfulltrúi og oddviti Sjálfstæðisflokksins. „Ég sé ekki hagkvæmnina í því að bærinn leigi húsnæði af öðrum. Við erum komin langt með þá vinnu að byggja við Ráðhúsið. Við grófa skoðun á þessum hugmyndum varðandi JMJ-húsið þá kemur þessi hugmynd of seint og ég sé ekki hag bæjarins í því að færa sína starfsemi þarna yfir,“ segir Gunnar.
Gunnar Gíslason
Guðmundur Baldvin Guðmundsson, formaður bæjarráðs og oddviti Framsóknarflokksins, segist lítast vel á hönnun JMJ-hússins, en þó ekki sem nýtt Ráðhús. „Hugmyndin að stækkun JMJ-hússins hefur lengið verið í umræðunni og mér finnst þetta falleg bygging að sjá eins og búið er að teikna þetta upp og mun eflaust henta vel fyrir ýmsa starfsemi og íbúðir. En umræðan um að þarna verði Ráðhús er alveg ný af nálinni og ég mér hugnast sú leið alls ekki. Við erum byrjuð á endurbótum á Ráðhúsinu og ég tel að sú staðsetning henti betur, m.a. tilliti til bílastæðamála. Ef við myndum færa starfsemi Ráðhússins yfir í JMJ-húsið tel ég að það væri afturför,“ segir Guðmundur Baldvin.
Guðmundur Baldvin Guðmundsson