Hugmyndir um hótel og veitingahús á Drottningarbrautarreitnum
"Við eigum í viðræðum við fjárfesta um hótelbygginguna, þar sem gert er ráð fyrir að rekið verði 100 herbergja hótel af þekktri hótelkeðju. Það kæmi mér ekki á óvart þótt framkvæmdir hæfust næsta vor og að einhver hótelrekstur væri kominn þarna í gang árið 2013. Það sama gæti verið upp á teningnum varðandi veitingahús á svæðinu. Við höfum þó sagt við alla sem hafa verið að sækjast eftir því að fá að byggja á reitnum, að við munum vera mjög strangir varðandi útlit bygginga og leggja áherslu á virðingu gagnvart næsta nágrenni."
Hugmyndir voru m.a. um bensínstöð og skyndibitastað á reitnum en þær voru slegnar út af borðinu. Farið var í að skipuleggja svæðið að nýju, eftir að fjárfestar fóru að sýna því áhuga og þá í þeim anda sem hugmyndir voru um á sínum tíma, að sögn Odds. Hann segir að ekki megi rísa þarna of háar byggingar og að þær byggingar sem rísa þurfi að falla vel inn í umhverfið og hafa yfir sér hlýlegan og gamaldags blæ. "Þetta verður flottur reitur, hann mun styrkja syðri hluta miðbæjarins og það verður horft til byggingalistar undangenginna áratuga. Við stefnum að því að ljúka deiliskipulagsvinnunni fyrir næstu áramót."
Oddur segir að í framhaldinu verði haldið áfram með skipulag miðbæjarins. "Oft er það þannig að menn taka sér of mikið fyirir hendur og klára ekki hlutina. Við ákváðum að taka þennan blett fyrir, skila honum af okkur með stolti og snúa okkur svo að næsta svæði. Minnihlutinn hefur kallað þetta bútasaum en ég vil kalla þetta skynsemi. Ef þú ætlar að mála húsið þitt, þá byrjar þú ekki í öllum herbergjum í einu."