Hugmyndir um fjölbýlishús í stað verslunar- og þjónustuhúss

Naustahverfi á Akureyri. Mynd: Hörður Geirsson.
Naustahverfi á Akureyri. Mynd: Hörður Geirsson.

Bæjarstjórn Akureyrar samþykkti á fundi sínum í vikunni tillögu skipulagsnefndar með 7 samhljóða atkvæðum, þess efnis að auglýsa tillögu um breytingu á deiliskipulagi lóðanna 1-3 og 5-9 við Hólamtún í Naustahverfi. Bæjarfulltrúar V-lista, B-lista, S-lista og D-lista sátu hjá við afgreiðslu málsins en skiptar skoðanir voru við umræðu um málið í bæjarstjórn. Eftir breytinguna fá Hólmatún 1 og 3-5 húsnúmerin 3-5 og 5-9, þar sem húsum fjölgar.  Húsagerðir á reitum C1 og C2 breytast. Í stað tveggja hæða verslunar- og þjónustuhúss auk kjallara á reit C1 koma tvö tveggja hæða fjölbýlishús með alls 8 íbúðum. Í stað fjögurra hæða fjölbýlishúss með 25-30 íbúðum og bílgeymslukjallara á reit C2 koma þrjú tveggja hæða fjölbýlishús, alls 12 íbúðir. Engir kjallarar né bílgeymslur verða í húsunum. Byggingarreitir stækka, lóðarstærðir breytast og bílastæðum fækkar úr 79 í 41 stæði.

Njáll Trausti Friðbertsson D-lista lagði fram svohljóðandi tillögu á fundi bæjarstjórnar: “Ég legg til að þessari tillögu að deiliskipulagsbreytingu sem hér er lögð fram verði frestað og málið verði kynnt hverfisnefnd Naustahverfis og fyrir íbúum hverfisins á opnum kynningarfundi.” Tillaga Njáls Trausta var borin upp og felld með 7 atkvæðum gegn atkvæðum Andreu Sigrúnar Hjálmsdóttur V-lista, Guðmundar Baldvins Guðmundssonar B-lista, Hermanns Jóns Tómassonar S-lista og Njáls Trausta Friðbertssonar D-lista.

Tillagan um deiliskipulagsbreytinguna er frá Önnu Margréti Hauksdóttur AVH ehf, fyrir hönd Byggingarfélagisns Hyrnu ehf.

 

Nýjast