Hugmynd um uppsetningu sleðabrautar (Alpine Coaster) í Hlíðarfjalli

Sleðabrautir eins og hér um ræðir eru afar vinsælar.
Sleðabrautir eins og hér um ræðir eru afar vinsælar.

Á fundi bæjarráðs i gær fimmtudag var tekin fyrir  greinargerð sem samþykkt var á fundi umhverfis og mannvirkjaráðs þann 16 maí  varðandi niðurstöðu dómnefndar í útboði á nýrri afþreyingu í Hlíðarfjalli.

Forsaga málsins er sú að umhverfis- og mannvirkjasvið Akureyrarbæjar auglýsti eftir aðila til að koma með nýja afþreyingu á eða í kringum svæði Hlíðarfjalls. Óskað var eftir umsóknum í opnu útboði í gegnum útboðsvef Akureyrarbæjar, sem var auglýstur á heimasíðu Akureyrarbæjar ásamt staðarfjölmiðlum. Umsóknir bárust frá 2 aðilum og tók dómnefnd aðstöðu til þeirra.  Fimm manna dómnefnd var skipuð til að fara yfir umsóknir sem bárust. 

Sú sem áhugaverðust  þótti er að setja upp sleðabraut (Alpine Coaster) Umsækjandi óskar eftir því að setja upp braut  í landi Hlíðarfjalls, nánar tiltekið austan við bílastæði skíðasvæðis í Hlíðarfjalli og vestan við Hálendur.  Brautin yrði um 1,1 – 1,3 km á lengd með um 850 m „lyftu“ eða samtals um 2.000 metrar. Áætluð opnun er sumarið 2025 ef samningaviðræður og deili- og skipulagsmál ganga eðlilega fyrir sig.

Í umsögn áður nefndrar dómnefndar segir:. ,,Tillagan fellur vel að heildarmynd Hlíðarfjalls en er þó lítið háð innviðum skíðasvæðisins og getur staðið sjálfstætt. Vannýtt svæði á milli bílastæðis Hlíðarfjalls og Hálanda yrði með þessu móti nýtt betur. Tillagan hefur mikið afþreyingargildi, hefur jákvæð áhrif á svæðið í heild og samræmist vel núverandi starfsemi. Hugmyndin yrði viðbót og nýjung á svæðinu og ætti að auka aðdráttarafl þess og upplifun fólks á svæðinu. Gestum myndi þar með fjölga á svæðinu allt árið um kring. Heilsársopnun samræmist vel þeirri þróun sem átt hefur sér stað undanfarin ár með hjólagarði og sumaropnun í skíðalyftum. Með þessu móti yrði rennt enn frekari stoðum undir þá viðleitni að gera Hlíðarfjall að heilsársáfangastað til afþreyingar og útivistar. Tillagan fékk 68,4 stig af 75 í skilagögnum 1 (91,2% af stigunum) og voru því skilagögn 2 opnuð. Framkvæmdar- og rekstraráætlun er sett upp með sannfærandi og trúverðugum hætti. Framkvæmdaáætlun verkefnisins virðist raunhæf og rekstraráætlun er talin trúverðug, raunhæf og vel uppsett. Bjóðandinn hefur mikla reynslu og fagþekkingu á sviði ferðaþjónustu, bæði sem rekstraraðili afþreyingar og með aðkomu að ýmis konar ferðaþjónustuverkefnum. Tillagan fékk 24,2 af 25 mögulegum stigum í skilagögnum 2 (96,8% af stigum). Heildareinkunn tillögu er því 92,6 stig af 100 mögulegum (92,6% af stigunum).“

 


Athugasemdir

Nýjast