Aðalfundur Hverfisnefndar Holta- og Hlíðahverfis var haldinn í Glerárskóla í liðinni viku. Tvö erindi voru flutt á fundinum, annars vegar fjallaði Hörður Geirsson hjá Minjasafninu á Akureyri um sögu Glerárþorps í máli og myndum og hins vegar sagði Sigríður Stefánsdóttir hjá afmælisnefnd Akureyrarbæjar frá ýmsum viðburðum sem efnt verður til vegna 150 ára afmælis bæjarins.
Berglind Rafnsdóttir formaður Hverfisnefndar segir að nefndin hafi varpað fram þeirri hugmynd að setja upp merkingar við gömul hús í Glerárþorpi og að hún muni vera í sambandi við afmælisnefnd varðandi það mál á næstu vikum. Þetta er verkefni sem hverfisnefndin mun vinna að á næsta starfsári, segir Berglind.
Hverfisnefnd Holta- og Hlíðahverfis er með virkari hverfisnefndum bæjarins, haldnir voru 9 fundir á liðnu starfsári og fjölmörg mál komu inn á borð nefndarinnar. Hún sendi framkvæmdanefnd bréf eftir aðalfund á síðasta ári, þar sem drepið var á ýmsum atriðum sem upp komu meðal íbúa hverfisins, m.a. vegna lagfæringa á bílaumferð um göngustíg við Áshlíð, en því var kippt í liðinni strax að sögn Berglindar. Eins komu fram óskir um að lagfæra merkingar við gangbraut hjá Sunnuhlíð, athugasemir komu fram um gönguleiðir barna til skóla, um snjómokstur við leikskóla og óskað ver eftir því að setja upp skilti við Langholt til að sýna undirgöng undir Hörgárbraut.
Þessi erindi eru öll til athugunar hjá bænum, segir Berglind.
Á vegum bæjarins er nú unnið að könnun meðal skólabarna á því hvaða leið þau fari jafnan í og úr skóla. Hverfisnefnd hefur einnig viðrað þá hugmynd að mála eða skreyta undirgöng í hverfinu, við Glerá og Hörgárbraut og hefur sótt um leyfi til Vegagerðar vegna þess og eins rætt við myndlistarkennara í Glerárskóla um möguleika á að ganga í verkið ásamt nemendum.