Eyfirskur karlmaður fæðir dóttur

Henrý Steinn og dótt­ir­in. Mynd/​Henrý Steinn
Henrý Steinn og dótt­ir­in. Mynd/​Henrý Steinn

Henrý Steinn er 19 ára Eyfirðingur, hann eignaðist dóttur á dögunum með kærasta sínum Dodda. Aðdragandi þess að Henrý varð faðir var líklega með óhefðbundnari hætti en hjá flestum feðrum. Henrý nefnilega gekk bæði með barnið og fæddi það. Barnið kom í heiminn 13. apríl. Hann segist í viðtali við GayIceland.is vera í skýjunum en óléttan var óvæntur glaðningur.

„Ég er úr stórri fjölskyldu þar sem eru mörg börn, þetta er tíunda barnabarn mömmu og mig hefur langað að eignast börn frá því ég man eftir mér,“ segir Henrý Steinn í viðtalinu.

Henrý kom út úr skápnum sem transmaður fyrir um tveimur árum. Hann gerði sér snemma grein fyrir að eitthvað væri bogið við líf sitt. Hann áttaði sig hins vegar ekki á hvað það væri nákvæmlega sem ekki passaði.

Fæðingin tók hvorki meira né minna en 26 klukkustundir. Það reyndist nauðsynlegt að framkvæma keisaraskurð. Kynleiðréttingarferli Henrýs var svo að segja nýhafið þegar í ljós kom að hann var óléttur.

„Það var nokkuð sjokk þegar mig fór að gruna þetta en fljótlega fór ég að átta mig á því hve gott tækifæri þetta væri fyrir mig að eignast barn,“ segir Eyfirðingurinn við GayIceland. Hann setti sig í samband við transmann á Facebook en sá hefur gengið með og fætt barn. Þar var því góð ráð að finna.

Henrý og Doddi ætla að nefna dóttur sína á Hvítasunnudag. 

Nýjast