Hrun í fjölda gistinátta í Vaglaskógi í júnímánuði

Alls voru skráðar 966 gistinætur í Vaglaskógi í júnímánuði sl. og leita þarf nær 20 ár aftur í tímann til að finna júnímánuð þar sem gistinætur eru svo fáar. Til samanburðar má nefna að í júní í fyrra, voru gistinætur alls 3.808 talsins.  

„Að jafnaði eru um eða yfir 3000 gistinætur skráðar í Vaglaskógi í júnímánuði og svo hefur verið mörg undanfarin ár.  Veðrið núna, sem einkenndist af mikilli kuldatíð er helsti orsakavaldurinn að því að svo fáir gistu í skóginum í júní, en umferð hefur svo aukist töluvert eftir að kom fram í júlí og heldur fór að hlýna í veðri," segir Sigurður Skúlason skógarvörður.  Hann segir að það sama sé uppi á teningnum t.d. í Hallormsstaðaskógi og hrunið raunar enn meiri þar en í Vaglaskógi.  „Þetta er ekki svipur hjá sjón hjá því sem verið hefur undanfarið og jafnfáar gistinætur hafa ekki verið skráðar í Vaglaskógi frá því á árinum 1993 og 1994," segir Sigurður en á síðarnefnda árinu voru skráðar gistinætur 836 í júní.

Í fyrrasumar voru gistinætur í Vaglaskógi alls um 14 þúsund talsins, en ljóst að sú tala mun snarlækka milli ára. Auk þess sem veður var óhagstætt ferðafólki framan af sumri segir Sigurður að augljóst sé að hátt verð á eldsneyti dragi úr ferðagleði fólks.  Fastleigustæði hafi minna verið nýtt en oft áður, en Sigurður segir að ávallt sé einhver lausaumferð um skóginn, fólki í bústöðum í Fnjóskadal og víðar á svæðinu komi í töluverðum mæli í skóginn m.a. til að nýta sér göngustíga sem þar eru í boði.

Sigurður segir að veður hafi eðlilega áhrif á ferðalög fólks og að menn hafi tekið eftir því að ef ekki er gott veður á föstudegi þegar fólk leggur gjarnan upp í útilegur, þá sé helgin alveg ónýt. "Jafnvel þó svo veður sé gott hér á laugardegi og sunnudegi er eins og föstudagarnir skipti öllu máli varðandi ferðatilhögun manna," segir hann.

Nýjast