Hríseyjarhátíð 2014 verður haldin um helgina en hún er fyrst og fremst fjölskylduhátíð sem haldin hefur verið árlega síðan 1997. Á föstudeginum verður boðið upp á óvissuferðir fyrir börn, unglinga og fullorðna. Einnig verður boðið upp á kaffi í merktum görðum heimamanna sem er skemmtileg nýjung á Hríseyjahátíðinni.
Aðaldagskrá hátíðarinnar er á laugardeginum sem hefst um hádegið og stendur fram á kvöld. Meðal dagskráliða má nefna fjöruferð með Skralla trúð, dráttavélaferðir, lazertag, litla kirkjutröppuhlaupið, leiktæki, sýning á flugdrekaveiði sem stunduð var á árum áður í Hrísey, tónlist, smakk á afurðum Hríseyjar, ratleikur og fleira.
Að venju endar hátíðin á kvöldvöku þar sem fram koma m.a. tónlistarmennirnir Lára Sóley og Hjalti, Heimir Ingimarsson og Ingó veðurguð. Lokapunktur hátíðarinnar er síðan varðeldur og brekkusöngur sem Heimir Ingimarsson leiðir.