Hræringar í liði Þórs
Körfuknattleikslið Þórs gæti mætt nokkuð breytt til leiks í haust í 1. deild karla ef fram heldur sem horfir. Ólafur Torfason, sem var einn besti maður liðsins sl. vetur, samdi í vikunni við úrvalsdeildarfélag Snæfells og þá verður Bandaríkjamaðurinn Wesley Hsu ekki áfram með liðinu.
Einnig er ennþá óljóst hvort fyrirliði liðsins, Óðinn Ásgeirsson, verði með Þórsurum næsta vetur, sem og Makedóníumaðurinn Dimitar Petrushev. Samkvæmt heimildum Vikudags gætu enn fleiri leikmenn verið á förum frá Þór. Félagið er farið að skoða íslenska leikmenn til að fylla skörðin en ólíklegt er að liðið leiti erlendis að leikmönnum.
Þá er óvíst hvort þjálfarar liðsins, þeir Konrad Tota, sem einnig leikur með liðinu, og Sigurður Grétar Sigurðsson, verði áfram með liðið næsta vetur. Ný stjórn tók nýverið til starfa hjá körfuknattleiksdeild Þórs og mun ákveða framhaldið á næstu dögum.