Hraðakstur til óþæginda og of mikið ryk

Margrét Sigurðardóttir og eiginmaður hennar Einar Janus Kristjánsson. Mynd/MÞÞ
Margrét Sigurðardóttir og eiginmaður hennar Einar Janus Kristjánsson. Mynd/MÞÞ

Texti: Margrét Þóra Þórsdóttir


 

„Umferð og ástand í gilinu er ekki til sóma og orðið stórhættulegt,“ segir í umræðum á fésbókarsíðu Innbæinga, Innbær – Akureyri og er þá vísað til Lækjagötu sem liggur frá Aðalstræti og upp á brekkubrún við Kirkjugarðinn. Efri hluti götunnar er malarvegur og í þurrkatíð liðins sumars þyrlaðist ómælt upp af ryki öllum til ama. Þá er bent á að hraðakstur hafi verið til óþæginda undanfarið. Fýsir marga að vita hvort ekki eigi að gera bragarbót á og malbika þann vegspotta sem eftir er.

Andri Teitsson formaður umhverfis- og mannvirkjaráðs segir að vel megi velta fyrir sér hvort rétt sé að gera Lækjargilið sem kallað er betra fyrir bílaumferð með því að malbika veginn. Við það megi gera ráð fyrir að umferð aukist til muna, en bæjaryfirvöld vilji beina umferðinni frá Innbæ og upp á brekkubrún sem mest um Miðhúsabrautina, við Skautahöllina.

Bæta aðeins við malbikskaflann í haust

Guðríður Friðriksdóttir sviðsstjóri umhverfis- og mannvirkjasviðs segir að til standi að nú helst á haustdögum að bæta malbiki við aðeins ofar en það er nú. Malbikaði kafli götunnar nær rétt ofan við hús númer 22 við Lækjargötu og segir Guðríður Friðriksdóttir sviðsstjóri umhverfis- og mannvirkjasviðs að til standi nú í haust að bæta aðeins við of malbika aðeins meira. „Við vitum af því að rykið var mikið í sumar og það er íbúum í húsum efst í götunni til mikils ama. Við viljum gera þetta í sátt við íbúana,“ segir Guðríður.

Hún segir að svæðið sé fallegt, perla í bæjarlandinu en það hafi ekki verið skipulagt. „Það liggja enn ekki fyrir neinar ákvarðanir um hvað eigi að gera við þetta svæði. Það á eftir að vinna allt skipulag og fá það samþykkt áður en hægt er að aðhafast nokkuð. Það er alls ekki nóg að skella bara malbiki yfir götuna, það þarf meira að koma til,“ segir Guðríður. 

Lækjargata

Sumir keyra á blússandi ferð framhjá

„Við göngum mjög oft eftir Lækjargilinu, þetta er yndislegt svæði og virkilega gaman að fara þar um í gönguferðum,“ segir Margrét Sigurðardóttir en hún og eiginmaður hennar Einar Janus Kristjánsson búa í Hagahverfi og ganga sér til ánægju og heilsubótar oft upp eða niður Lækjargötuna í ferðum sínum. Þau sakna þess að hafa ekki gangstétt en engar slíkar eru við götuna. „Það yrði til mikilla bóta ef ekki þyrfti að ganga eftir sjálfri götunni heldur uppi á gangstétt, „ segja þau. Bílstjóra sem aki um segja þau misjafna, margir sýni tillitssemi og hægi ferðina, en alls ekki allir. „Það keyra hér sumir alveg á blússandi ferð og skeyta engu um gangandi vegfarendur. Það er mjög óþægilegt að upplifa og eins er leiðinlegt að fá yfir sig allt þetta ryk sem fylgir hraðri bílaumferð,“ segja þau Margrét og Einar Janus.

Má bjóða þér áskrift að Vikublaðinu? Smelltu þá HÉR

 


Athugasemdir

Nýjast