Höskuldur íhugar formannsframboð

Höskuldur Þórhallsson íhugar framboð til formanns KSÍ.
Höskuldur Þórhallsson íhugar framboð til formanns KSÍ.

Hösk­uld­ur Þór­halls­son, fyrr­ver­andi þingmaður Fram­sókn­ar­flokks­ins, er að íhuga fram­boð til for­manns Knatt­spyrnu­sam­bands Íslands, KSÍ. Þetta staðfesti hann sjálfur við mbl.is laust fyrir hádegið.

„Það er rétt að fé­lög utan af landi hafa verið í sam­bandi við mig og ég get staðfest að ég er að skoða það, já. Það er frek­ar stutt­ur aðdrag­andi að þessu og ég er ekki reiðubú­inn að gefa út yfir­lýs­ingu um það hvort ég muni sækj­ast eft­ir embætt­inu. En það hafa nokkr­ir komið að máli við mig og ég hef verið í sam­bandi við þó nokkra. Í ljósi þess tel ég rétt að skoða þetta og er að gera það þessa dag­ana,“ seg­ir Hösk­uld­ur við mbl.is.

Ef Höskuldur yrði kosinn formaður segist hann ætla að leggja áherslu á að brúa það bil sem orðið hefur á milli höfuðborgar og landsbyggðar.

Höskuldur er ekki alls ókunnur fótboltanum eins og knattspyrnuáhugamenn vita. Hann lék á árum áður með Fram og KA á Akureyri. Þá þjálfaði hann um tíma meistarflokk Gróttu en hann hefur einnig komið að þjálfun yngri flokka.

Uppfært kl. 18:13

Eiríkur Björn einnig í framboð?

Þá kemur fram á vefmiðlinum Fótbolti.net að Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri hefi fengið fjölda áskorana um að bjóða sig fram til formanns KSÍ. „Ég hef verið spurður af aðilum úr knattspyrnuhreyfingunni hvort ég hafi velt formannsstarfinu fyrir mér og hvort ég gæti hugsað mér að bjóða mig fram á næsta ársþingi," sagði Eiríkur í samtali við Fótbolta.net í dag. 

Eiríkur segist jafnframt enga ákvörðun hafa tekið.

Árþing KSÍ fer fram þann 11. febrúar næstkomandi en nú þegar hafa þeir Björn Einarsson og Guðni Bergsson tilkynnt um sitt framboð.

 

Nýjast