Horft fram á bjartari tíma í fjárhagsáætlun næsta árs

Fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar 2012 er til fyrri umræðu á fundi bæjarstjórnar sem nú stendur yfir.
Fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar 2012 er til fyrri umræðu á fundi bæjarstjórnar sem nú stendur yfir.

Fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar fyrir árið 2012 var lögð fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn Akureyrar í dag en fundurinn hófst kl. 16.00. Gert er ráð fyrir að seinni umræða fari fram 6. desember. Rekstrarafkoma A– og B–hluta er áætluð jákvæð um 68,3 milljónir króna eftir fjármagnsliði og tekjuskatt. Á blaðamannafundi meirihluta L-lista fyrir stundu, kom fram hjá Geir Kristni Aðalsteinssyni forseta bæjarstjórnar, að ekki væri gert ráð fyrir frekari niðurskurði í áætluninni en hins vegar yrði áfram reynt að hagræða í rekstri eins og frekast er kostur.

Fulltrúar minnihlutaflokkanna voru þátttakendur í vinnu við fjárhagsáætlunina en komu ekki fram með neinar hugmyndir, að sögn Odds Helga Halldórssonar formanns bæjarráðs. Fulltrúum minnihllutaflokkanna var einnig boðið á blaðamannafundinn, fyrir fund bæjarstjórnar, en enginn þeirra mætti þar.

Gjaldskárhækkunum er einnig stillt í hóf, segir í fréttatilkynningu sem lögð var fram á fundinum, og fylgja yfirleitt verðlagsþróun en eru í nokkrum tilvikum undir henni. Í raun má segja að horft sé fram á bjartari tíma á þeim forsendum meðal annars að atvinnuleysi hefur minnkað í sveitarfélaginu, útsvarstekjur hækka, fólksfjölgun er stöðug, fyrirsjáanleg er fjölgun ferðamanna og framundan eru ýmis spennandi verkefni sem munu treysta atvinnulífið enn frekar. Nefndi Geir Kristinn í því sambandi meðal annars Vaðlaheiðargöng og undirbúning að stækkun aflþynnuverksmiðju Becromal í Krossanesi. Aðhald verður áfram í yfirvinnu og ekki verður um að ræða uppsagnir meðal starfsmanna bæjarins. Stefnt er að því að hefja framkvæmdir við lagningu Dalsbrautar í byrjun næsta árs og ljúka framkvæmdinni  árinu. Heildarkostnaður við verkið er áætlaður um 200 milljónir króna. Akureyrarbær fagnar 150 ára afmæli á næsta ári og fær afmælisnefndin 30 milljónir króna til ráðstöfunnar. Einnig verður 5 milljónum króna varið aukalega í fegrun bæjarins á afmælisárinu og 5 milljónum króna verður varið til að efla starfsemi félagsmiðstöðva enn frekar. 

  1. Heildartekjur samstæðureiknings Akureyrarbæjar eru áætlaðar tæpir 16,9 milljarðar króna en heildargjöld án fjármagnsliða eru áætluð rúmir 15,2 milljarðar króna. Niðurstaða án fjármagnsliða er því rúmir 1,6 milljarðar króna. Fjármagnsgjöld eru áætluð tæpir 1,5 milljarðar og rekstrarniðurstaða er áætluð jákvæð um rúmar 68 milljónir króna.
  2. Heildartekjur aðalsjóðs verða rúmir 12,3 milljarðar en heildarútgjöld rúmir 13,2  milljarðar. Fjármunatekjur aðalsjóðs eru áætlaðar tæpar 918 milljónir. 
  3. Gert er ráð fyrir óbreyttri útsvarsprósentu eða 14,48% í fyrirliggjandi áætlun. 
  4. Leikskólagjöld hækka og hlutur foreldra verður eftir hækkun um 22% af heildarkostnaði við vistun hvers barns. Gert er ráð fyrir að sporphirðugjald hækki um 5% og verði 23.100 kr. á hvert heimili. Þrátt fyrir miklar almennar kostnaðarhækkanir er reynt að stilla hækkunum á gjaldskrám mjög í hóf.
  5. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur nú lokið kjarasamningum við alla hópa starfsmanna og auk launahækkana árið 2011 leiða þeir að jafnaði til launahækkunar um 3% árið 2012. Aðhald verður áfram í yfirvinnu og ekki verður um að ræða uppsagnir meðal starfsmanna bæjarins.
  6. Í almennum rekstrargjöldum stofnana og deilda er enn gætt aðhalds en í forsendum áætlunar er gert ráð fyrir 2% hækkun á þessum liðum sem er talsvert undir verðlagsþróun.
  7. Framkvæmdaáætlun Fasteigna Akureyrar fyrir árið 2012 verður rúmur 1,5 milljarður króna. Framkvæmdum verður fram haldið við Naustaskóla og hjúkrunarheimili við Vestursíðu sem áætlað er að ljúki á haustmánuðum 2012. Framkvæmdir á vegum eignasjóðs gatna eru áætlaðar fyrir 320 milljónir króna. Fjárfestingar Norðurorku eru áætlaðar um 200 milljónir króna og framkvæmdir Hafnarsamlags Norðurlands gera samtals ráð fyrir fjárfestingum upp á 112 milljónir en þar af eru innan hafnaráætlunar 46 milljónir króna en utan hennar 65,5 milljónir króna.
  8. Langtímaskuldaaukning samstæðunnar er rúmar 418 milljónir króna á næsta ári. Afborganir lána nema tæpum 1,2 milljörðum króna og ný lán verða tekin fyrir 1,6 milljarð. Handbært fé frá rekstri verður rúmir 2 milljarðar króna.

 

Nýjast