Hörður Fannar ristarbrotinn
Hörður Fannar Sigþórsson línumaður Akureyrar er ristarbrotinn og verður hann frá keppni í einhverjar vikur. Fram kemur á vef Akureyri Handboltafélags að brotið bein sé í ristinni en hann meiddist í leiknum gegn FH á dögunum og þurfti að fara af velli snemma í síðari hálfleik. Hörður mun fara í frekari myndatökur í vikunni og mun þá koma betur ljós hvað hann verði lengi frá.
Þetta eru slæm tíðindi fyrir Akureyrarliðið en nú þegar eru fyrirliðinn Heimir Örn Árnason, Ásgeir Kristinsson, Ásgeir Jónsson og Daníel Einarsson á meiðslalistanum.
Erfitt verkefni býður norðanmanna í næstu umferð er liðið sækir Fram heim á miðvikudagskvöldið en Safamýradrengir hafa byrjað N1-deildina með látum.