Hörður Fannar Sigþórsson var hetja Akureyringa í kvöld er hann tryggði sínum mönnum eins marks sigur gegn Haukum, 20-19, í Höllinni fyrir norðan í N1-deild karla í handknattleik. Hörður skoraði sigurmarkið í þann mund sem flautan gall og Akureyringar hreinlega ærðust af fögnuði í leikslok.
Akureyringar léku sem valdið höfðu fyrstu mínútur leiksins og komust í 4-0. Aroni Kristjánssyni leist ekkert á blikuna á tók leikhlé strax eftir þrjár mínútur og 50 sekúndur og talaði um fyrir sínum mönnum. Haukamenn komust betur inn í leikinn þegar leið og minnkuðu muninn í eitt mark ,7-6, um miðjan hálfleikinn. Eftir það leikurinn hníjafn og liðin skiptust á að skora. Norðanmenn voru þó alltaf skrefinu á undan og Haukum gekk erfiðlega að ná að jafna metin. Heimamenn leiddu í hálfleik með tveimur mörkum, 11-9.
Báðir markverðir liðsins voru í aðalhlutverki í fyrri hálfleik. Sveinbjörn Pétursson varði 11 skot í marki Akureyrar og hinu megin var Birkir Ívar Guðmundsson engu síðri með 10 skot varin, en hann tók fyrstu 7 skotin á fyrsta korterinu og var Akureyringar erfiður, sem og oft áður. Oddur Gretarsson fór fyrir sóknarleik Akureyrar með sex mörk og þá var Bjarni Fritzson drjúgur að vanda með fjögur mörk, en Haukar dreifðu markaskoruninni bróðurlega á milli.
Leikurinn var áfram stál í stál í upphafi seinni hálfleiks. Akureyringar héngu á tveggja marka forystu og juku muninn í fjögur mörk, 15-11, þegar átta mínútur voru liðnar af seinni hálfleik. Haukar voru í tómu basli í skóknarleiknum og lykilmenn engan veginn að ná sér á strik og gátu Haukar þakkað Birki Ívari fyrir að norðanmenn stungu þá ekki af, en Birkir hélt þeim inn í leiknum með frábærum markvörslum.
Haukar náðu að saxa á forskotið og minnkuðu muninn í eitt mark, 15-16, þegar seinni hálfleikur var um það bil hálfnaður. Atla Hilmarssyni þjálfari Akureryrar var þá nóg boðið og tók leikhlé, en norðanmenn voru orðnir full kærulausir og þurftu að skerpa á hlutunum, þá sérstaklega sóknarleiknum. Haukar náðu að jafna leikinn í 16-16 þegar tólf mínútur lifðu leiks og í var í fyrsta sinn jafnt í tölum, en þegar þarna var komið við sögu höfðu Akureyringar ekki skoraði í tíu mínútur.
Haukar komust í fyrsta sinn yfir í leiknum, 18-17, þegar rúmlega fimm mínútur voru til leiksloka. Það var allt í járnum á lokamínútunum og Bjarni Fritzson jafnaði metin fyrir Akureyri í 19-19 þegar slétt mínúta var til leiksloka. Haukar lögðu af stað í sókn en Stefán Rafn Sigmarsson skaut boltanum framhjá markinu. Sautján sekúndur eftir og Akureyringar lögðu af í sókn. Þegar sóknin virtist vera að renna út í sandinn kom Bjarni Fritzson boltanum á Hörð Fannar Sigþórsson á línunni sem tók snúning og kom boltanum í netið á síðustu sekúndunni. Lokatölur 20-19 og Akureyringar hreinlega ærðust í leikslok.
Mörk Akureyrar: Oddur Gretarsson 7 (1), Bjarni Fritzson 6 (3), Geir Guðmundsson 3, Hörður Fannar Sigþórsson 2, Guðmundur Hólmar Helgason 2.
Varin skot: Sveinbjörn Pétursson 21 (2)
Mörk Hauka: Nemanja Malovic 1, Gylfi Gylfason 3 (2), Stefán Rafn Sigurmannsson 4, Heimir Óli Heimisson 2, Tjörvi Þorgeirsson 3, Freyr Brynjarsson 4, Tjörvi Þorgeirsson 1, Árni Steinn Steinþórsson 1, Matthías Árni Ingimarsson 1
Varin skot: Birkir Ívar Guðmundsson 19 (1), Aron Rafn Eðvarðsson 1 (1)