Hópur stúdenta í sjávarútvegsfræði og líftækni heimsótti Tromsø í Noregi

Mynd/Unak.is
Mynd/Unak.is

Í byrjun nóvember  á síðasta ári fór hópur stúdenta í sjávarútvegsfræði og líftækni í ferð til Tromsø í Noregi ásamt Magnúsi Víðissyni brautarstjóra í sjávarútvegsfræði. Tilgangur ferðarinnar var að kynnastbetur Háskólanum í Tromsø þar sem meðal annars er í boði nám í sjávarútvegsfræði og sjávarlíftækni. Þá var ferðin einnig nýtt til þess að fara heimsóknir í fyrirtæki og stofnanir á svæðinu sem tengjast fræðunum. Ferðin var styrkt af Nordplus.

„Mér fannst mest gaman að hitta starfsfólk sem er útskrifað úr því námi sem ég stunda og er í mjög góðum stöðum innan fyrirtækis í öðru landi. Það gefur manni ákveðið sýnishorn á hversu langt maður getur farið með gráðuna,“ segir Friðbjörg María Björnsdóttir, stúdent í sjávarútvegsfræði.

Í ferðinni voru margvísleg fyrirtæki og stofnanir heimsótt og ber þar helst að nefna Nergård As, Elvevoll Settefisk AS, Ewos fiskeldisfóðurverksmiðju, Biotech North, Marbank og Norska sjávarafurðarráðið (Norges Sjømåtråd).

„Við leggjum mikið upp úr því að sýna fram á hversu fjölbreytt störf stúdentar geta valið um að námi loknu. Svo er auðvitað gaman að sjá hversu vel „okkar“ fólki vegnar utan landssteinanna,“ sagði Magnús Víðisson brautarstjóri í sjávarútvegsfræði sem fór með hópnum.

Í Háskólanum í Tromsø fengu stúdentar kynningu á stoðþjónustunni og námsframboðinu auk þess sem verkefni var lagt fyrir þau í formi leiks. Í leiknum þurftu stúdentar að búa til fiskveiðistjórnunarkerfi fyrir nýja tegund í tilbúnu landi en á sama tíma að reyna að þóknast mismunandi hagsmunaaðilum sem tengjast sjávarútveginum, byggðum og umhverfinu. Stúdentar kynntu síðan niðurstöður fyrir kennurum og stóðu sig öll með prýði.

Hópurinn var sérstaklega styrktur af Jóni Inga Björnssyni hjá Nergård AS og Sigmari Arnarssyni hjá Elevoll Settefisk AS – báðir brautskráðir sjávarútvegsfræðingar frá Háskólanum á Akureyri.


Athugasemdir

Nýjast