Í tilkynningu frá Air Iceland Connect segir að ekki verði boðið upp á Hopp-fargjald lengur. Greint var frá þessu á Vísir.is og sagt að mikil óánægja sé um þessa ákvörðun. „Hoppið“ hjá Air Iceland Connect hefur lengi vel verið þekktur ódýr valkostur fyrir ungt fólk í innanlandsflugi.
Hoppgjaldið er í boði fyrir 12-25 ára og er ódýrara en almennt gjald og hægt að bóka með stuttum fyrirvara en þeir sem bóka slíkt fargjald mæta alltaf afgangi. Framkvæmdastjóri flugfélagsins, Árni Gunnarsson, segir í samtali við Vísir.is að hoppfargjöld séu ekki lengur hagkvæmasti kosturinn og því hafi verið ákveðið að leggja það niður.
„Það hefur orðið breyting á framboði fargjalda þannig að nú er Hopp-fargjald ekki lengur ódýrasta fargjaldið heldur bjóðum við fargjöld nú allt niður í 6.900,- á staðfestu fargjaldi og því er það betri valkostur fyrir farþega í mörgum tilfellum,“ segir Árni í samtali við Vísi.