Hólmfríður Stefánsdóttir er 100 ára í dag

Hólmfríður skálaði í sherry við afmælisgesti í dag.
Hólmfríður skálaði í sherry við afmælisgesti í dag.

Hólmfríður Stefánsdóttir íbúi í Kjarnalundi á Akureyri er 100 ára í dag. Af því tilefni var haldin afmælisveisla á staðnum, þar sem aðrir íbúar, starfsfólk og ættingjar samfögnuðu afmælisbarninu. Hólmfríður er farin að missa sjón og heyrn, hún er aðeins farin að gleyma en er að öðru leyti við góða heilsu. Það var nokkuð létt yfir afmælisbarninu þegar Vikudagur heimsótti hana fyrir stundu og skálaði hún í sherry við ættingja sína.

Hólmfríður fæddist í Grímsey þann 29 nóvember árið 1911 en hún fluttist barnung til Akureyrar, þar sem hún hefur búið síðan. Hún giftist Ellerti Þóroddsyni frá Sjávarbakka í Arnarneshreppi. Hann var lengst af vélstjóri til sjós en lést árið 1973, eftir veikindi. Hólmfríður eignaðist 7 börn, hún missti 2 börn við fæðingu og sonur hennar Þórhallur Ellertsson fórst með Súlunni EA árið 1963 en hann var 1. vélstjóri á skipinu. Þrjú af börnum Hólmfríðar eru á lífi. Hún og Ellert bjuggu lengst af í gamla íshúsinu á Akureyri, einnig í Hafnarstræti 84 og eftir að Hólmfríður var orðin ein, bjó hún í Smárahlíð, eða þar til hún flutti í Kjarnalund fyrir um þremur árum. Hólmfríður sagði að í Kjarnalundi væri mjög gott starfsfólk en að sér leiddist þar engu að síður, hún hefði lítið við að vera og gæti t.d. ekki prjónað lengur, þar sem sjónin er farin að daprast. Afkomendur hennar í afmælinu í dag, voru þó sammála um að Hólmfríður hefði gaman af því að tala og væri mikil selskapsmanneskja. Hólmfríður var virkilega ánægð með afmælisdaginn og hversu margir komu í heimsókn. Hún starfaði lengst af í frystihúsinu á Akureyri en sínum yngri árum var hún í síld á Siglufirði og síðar fór hún ásamt Rúnu dóttur sinni í síld á Raufarhöfn.

Nýjast