Hollvinir Húna vilja vernda gömul skip og báta

Húni II við bryggju á Akureyri/mynd Karl Eskil
Húni II við bryggju á Akureyri/mynd Karl Eskil

Á aðalfundi Hollvinafélags Húna II sem haldinn var á Akureyri um borð í Húna II laugardaginn 30. apríl sl. var gerð samþykkt ályktun þar sem skorað er á Minjastofnun og stjórnvöld að standa betur að verndun gamalla skipa og báta.

„Félagið leggur til að fylgt verð svipaðri stefnu varðandi verndun gamalla báta og gert er við verndun gamalla húsa enda hafa skip og bátar í gegn um aldirnar verið jafnt íverustaðir sem atvinnutæki sjómanna meðan þeir hafa dvalið langtímum að heiman. Löngu er tímabært að stoppa þá óheillaþróun að skipum og bátum sé eytt án tillits til sögu og menningargildis. Þá leggur fé­ lagið til að lögum um minjavernd verði breytt þannig að skip verði fornmunir við ákveðinn aldur, t.d. 50 ár, en ekki miðað við ártalið 1950 eins og nú er gert.“

Báturinn í góðu standi og ferð til Færeyja

Á fundinum kom fram í skýrslu vélstjóra að síðan rekstur Húna II hófst á Akureyri 2006 hefur bátnum verið siglt 25568 sjómílur og aldrei komið upp nein bilun. Báturinn er í mjög góðu ástandi og í sumar huga Hollvinir á ferð til Færeyja á Norrænt strandmenningarmót.

Húni II, er í eigu Iðnaðarsafnsins á Akureyri, en er í fóstri hjá Hollvinafélagi Húna II, sem sér alfarið um rekstur og viðhald bátsins. „Hollvinir Húna II þakka þann velvilja sem þeir njóta víða um samfélagið,“ segir í tilkynningu. -þev

Nýjast