Hollvinasamtök Sjúkrahússins á Akureyri safna fyrir 40 milljón króna hryggsjá

Sjúkrahúsið á Akureyri   Mynd Karen Lind
Sjúkrahúsið á Akureyri Mynd Karen Lind

„Þetta er stærsta og dýrasta einstaka tækið sem við höfum safnað fyrir,“ segir Jóhannes Bjarnason formaður Hollvinasamtaka Sjúkrahússins á Akureyri. Samtökin fagna 10 ára afmæli sínu á næsta ári og ætla í tilefni af því að gefa SAk nýtt tæki, hryggsjá sem ekki er til hér á landi. Tækið kostar um 40 milljónir króna.

Hryggsjá segir Jóhannes vera eins konar siglingartæki fyrir skurðlækna sem sérhæfa sig í bakaðgerðum, það sýnir leiðir sem best er að fara þegar aðgerðir eru gerðar á hrygg og hvernig best er að athafna sig þegar komið er inn í líkamann. „Það er þó nokkur fjöldi fólks sem á við margs konar bakverki að stríða. Þetta tæki hefur ekki verið til hér á landi og því verður mikil og góð breyting á þegar við höfum fest á því kaup og komið því í notkun hér norðan heiða,“ segir Jóhannes.

Bylting fyrir bakveika

Ekki er hægt að segja fyrir um hversu margir komast í aðgerð á baki þegar tækið verður tekið í notkun en Jóhannes segir að það muni auka mjög lífsgæði þeirra sem í þær fari, verði í raun algjör bylting og því sé um verulega gagnlegt tæki að ræða, „sem við hlökkum til að kynna og hefja söfnun á,“ segir hann og fagnar því að hægt verði að gera þessar aðgerðir hér á landi í nánustu framtíð, en ella hefði fólk leitað út fyrir landsteina í slíkar aðgerðir eða búið við sína bakverki áfram.

Jóhannes segir að Freyr Gauti Sigmundsson sem gerði garðinn frægan sem júdókappi í eina tíð og fór meðal annars sem fulltrúi Júdódeildar KA á Olympíuleika væri nú virtur bakskurðlæknir í Svíþjóð. Hann kæmi á gamlar heimaslóðir, Akureyri fjórum sinnum á ári til að heimsækja móður sínar sem þar býr. „Hann mun í þeim heimsóknum taka upp skurðhnífinn og sinna þeim sjúklingum sem á þurfa að halda. Það er virkilega ánægjulegt að fá hann til liðs við þetta verkefni,“ segir hann.

Hafa safnað 4-500 milljónum til tækjakaupa

Hollvinasamtök SAk voru stofnuð árið 2013 og hafa á þeim 9 árum sem þau hafa starfað safnað á bilinu frá 400 til 500 milljónum króna sem nýtt hafa verið til tækjakaupa fyrir sjúkrahúsið. Það er tæpur þriðjungur af öllum því fé sem SAk hefur til ráðstöfunar til kaupa á tækjum. Alls eru félagar í samtökunum um 2700 talsins og greiða árgjald upp á 6000 krónur. Tekjur af árgjöldum eru á bilin 12 til 14 milljónir á ári hverju.

 Jóhannes  segir að nú standi yfir vinna við að breyta formi samtakanna úr góðgerðarfélagi yfir í almannaheillafélag, en það gerir að verkum að einstaklingar og fyrirtæki sem veita styrki geta nýtt sér skattaafslátt á móti. „Við væntum þess að það mun auðvelda okkur að leita til fyrirtækja eftir stuðningi, en almennt finnum við fyrir miklum velvilja til sjúkrahússins hér frá nærsamfélaginu,“ segir hann.


Athugasemdir

Nýjast