Hollvinasamtök Sjúkrahússins á Akureyri hafa gefið þrjú ný barnaborð til notkunar á barnadeild, fæðingadeild og á gjörgæslu- og svæfingadeild. Borðin leysa af hólmi eldri borð sem þykja barn síns tíma.
Nýju borðin eru vel útbúin tækjum til að veita nýburum og ungbörnum þá umönnun sem þau þarfnast við ýmsar aðstæður t.a.m. fyrir fyrirbura, börn sem fæðast með keisaraskurði, til endurlífgunar eða fyrir nýfædd börn sem þurfa smá aðstoð við fyrsta andardráttinn í hlýjunni frá hitalampa. Öryggi er allt með besta móti og borðin þægileg í notkun fyrir heilbrigðisstarfsmenn sem annast börnin, jafnt í flutningi milli deilda sem og inni á deildunum.