Höfum trú á því að við getum strítt þeim
Þór og KR mætast í stærsta einstaka knattspyrnuleik ársins í dag er liðin leika til úrslita í Valitor-bikarnum á Laugardalsvelli kl. 16:00. Þetta er í fyrsta sinn sem Þór kemst í úrslit en í 16. sinn sem KR leikur til úrslita. Vesturbæingar hafa leikið manna best í sumar og verða að teljast mun sigurstranglegri. Þórsarar hafa hins vegar verið að stíga upp undanfarið og margir tala um „spútnik“ lið Pepsi-deildarinnar. Páll Viðar Gíslason, þjálfari Þórs, segir stemmninguna góða í sínu liði og menn séu vel einbeittir á verkefnið framundan.
„Þetta er auðvitað spennandi og gaman fyrir strákana að upplifa að spila svona stóran leik,“ segir Páll, sem er farinn að kortleggja andstæðinginn fyrir stóra daginn. „Ég fylgdist með KR um síðustu helgi og svo höfum við líka spilað við þá einu sinni í sumar. Maður þekkir þeirra helstu styrkleika en þeir hafa nú ekki marga veikleika.“
Þurfum að nýta okkar vopn
Aðspurður um hvað þurfi til þess að leggja KR að velli svarar Páll Viðar: „Við verðum að vera 100 prósent klárir í þetta og spila okkar leik og sjá hvert það skilar okkur. Við þurfum að spila sterkan varnarleik og nýta okkar vopn sem er að sækja hratt og reyna að fá framlínuna í botn. Menn verða að henda sér í hvað sem er og fórna sér fyrir félagana. Ég held að margir séu á því að þetta sé það erfitt verkefni fyrir okkur að þetta sé fyrirfram búið. Mínir leikmenn eru hins vegar ekki á þeirri skoðun og við höfum trú á því að við getum strítt þeim. Við getum orðað það þannig að við höfum allt að vinna í þessum leik. “ Það þarf ekki að hafa mörg orð um mikilvægi stuðningsmanna á leiknum og segir Páll að hann hafi engar áhyggjur af því. „Ég held að við séum mjög sigurstranglegir í stúkunni. Þó að Þórsarar verði ekki jafn margir í stúkunni og KR-ingar að þá verða klárlega lætin og köllin okkar megin,“ segir Páll.
Erum með sjálfstraustið í botni
KR-ingar eru öllu vanir þegar kemur að bikarúrslitum enda sigursælasta lið bikarkeppninnar. Alls hefur liðið leikið 15 sinnum til úrslita og 11 sinnum orðið bikarmeistari. Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, segir mikla spennu vera í sínu liði fyrir leikinn. „Það er auðvitað mikil tilhlökkun í okkur og við förum með gott sjálfstraust í leikinn sem er í botni eftir gott gengi í sumar,“ segir Rúnar. En hvernig líst honum á Þórsliðið? „Við gerum okkur grein fyrir því að við erum að fara mæta mjög góðu liði, sem hefur sýnt stíganda undanfarnar vikur og mánuði, fyrir kannski utan síðasta deildarleik. Þeir eru gríðarlega hættulegir í föstum leikatriðum, þeir hafa stóra og sterka menn. David Disztl er mikill markaskorari sem ekki má líta af og Atli Sigurjónsson er frábær miðjumaður sem býr mikið til. Svo hafa þeir Gunnar Már Guðmundsson sem hefur reynslu í að spila bikarleik. Þeir beita líka löngum innköstum sem getur verið hættulegt, en í flestum tilvikum ætti að dæmi þessi innköst ólögleg að mínu mati en þeir komast upp með það,“ segir Rúnar.
Enginn pressa
Rúnar segist ekki finna fyrir pressu fyrir leikinn en flestir reikna með sigri KR á laugardaginn, sem ekki hefur tapað leik í sumar fyrir utan Evrópuleiki. „Bikarinn hefur þann sjarma að það skiptir engu máli hvar liðin eru í deildinni þegar þau mætast og það gerast alltaf óvæntir hlutir. Við lentum í basli í undanúrslitum og það var fín áminning.“ KR hefur misst sterka leikmenn í meiðsli og bann fyrir leikinn. Óskar Örn Hauksson er frá vegna meiðsla og Guðmundur Reynir Gunnarsson verður í banni. Þá er markvörðurinn Hannes Þór Halldórsson tæpur vegna meiðsla, auk þess sem varamarkvörður liðsins er meiddur. „Það er gott að hafa góðan hóp þegar svona staða er uppi og ég treysti þeim strákum sem hafa verið að koma inn af bekknum til leysa þessi mál,“ segir Rúnar.
Kominn tími á nýjan lit
Þótt Þór sé að fara í bikarúrslit í fyrsta sinn þekkir Páll Viðar það ágætlega að spila til úrslita. Hann hefur tvisvar farið sem leikmaður, með KA árið 1992 og Leiftri árið 1998 og bæði skiptin tapað. „Þannig að ég er enginn stórsigurvegari í þessum bikar viðureignum en það er stefnan að fá annan lit á medalíuna núna,“ segir Páll Viðar.