Höfuðborgartónlist út á land
Hljómsveitirnar ætla að fara í hringinn í kringum landið og halda fimm tónleika á fimm dögum. Menningarhúsið Hof á Akureyri er fjórði viðkomustaðurinn og á morgun, fimmtudaginn 21.júlí, stíga sveitirnar á stokk í Hamraborg í Hofi. Agent Fresco strákarnir eru nýkomnir úr Evróputúr þar sem þeir spiluðu meðal annars á Hróarskeldu en þeir áttu eina af bestu plötum síðasta árs hér á landi. Lockerbie voru að gefa út sína fyrstu breiðskífu og er hún plata vikunnar á Rás 2 sömu viku og Póst Rokk og Ról fer um landið. Einnig hefur plata Lockerbie verið hljómsveit vikunnar í þýska ríkisútvarpinu og nýlega skrifuðu meðlimir hljómsveitarinnar undir útgáfusamning í Japan. Of Monsters And Men hafa slegið í gegn með laginu Little Talks og hefur myndbandið við það lag fengið yfir 120þúsund spilanir á YouTube.
Meðlimir hljómsveitanna segja tilganginn með ferðalaginu meðal annars vera að koma íslenskri tónlist úr höfuðborginni betur á framfæri til landsbyggðarinnar og um leið auka fjölbreytni og úrval í tónleikahaldi utan Reykjavíkur. Einnig sé stefnan að stækka aðdáendahóp hljómsveitanna, fá aukna reynslu og upplifun sem og að ná betri og víðari tengslum við innlendan markað.Hópurinn sem ferðast hringinn samanstendur af fjórtán tónlistarmönnum, fararstjóra, hljóðmanni,ljósmyndara, vídeóupptökustjóra og starfsmanni í miðasölu.