Hof og Hótel Kea vinna saman að markaðssetningu

Menningarhúsið Hof og Hótel Kea hafa undirritað samstarfssamning sem felur meðal annars í sér samsstarf í markaðsaðgerðum með áherslu á menningarbæinn Akureyri . Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir framkvæmdarstjóri Menningarhússins Hofs segir í tilkynningu virkilega ánægjulegt að vera í samstarfi við Hótel Kea sem er fyrir löngu síðan orðin órjúfanlegur hluti af Akureyri. „Hótel Kea stendur alltaf fyrir sínu enda eitt rótgrónasta fyrirtæki bæjarins og næstelsta hótel landsins.“

Fyrsta verkefni Hofs og Hótels Kea í þessu samstarfi felur í sér tilboð á gistingu og á miðum á tónleika Pálma Gunnarssonar, sem bera yfirskriftina Þorparinn.

Hrafnhildur E. Karlsdóttir hótelstjóri á Hótel Kea segist fagna samstarfinu enda sé það mikilvægt að eiga í góðu samstarfi við menningarstofnanir bæjarins. „Margir af okkar gestum koma hingað meðal annars til þess að sækja menningarviðburði og við viljum eiga í sem mestu og bestu samstarfi við menningarstofnanir á Akureyri og er þetta samstarf hluti af því,“ segir Hrafnhildur í tilkynningu til fjölmiðla.

Nýjast