Hlynur heldur fyrirlestur um verk sín og sýningar
Fyrirlestraröðin hefur verið hluti af námsefni listnámsbrautar VMA til fjölda ára og er boðið upp á 8 fyrirlestra yfir vetrartímann með áherslu á að við fáum innsýn í margvíslega heima lista og menningarlífsins. Í fyrirlestri sínum mun Hlynur segja frá nokkrum verka sinna og sýningum með áherslu á verk sem hafa með tengsl við áhorfendur að gera, samfélagsgagnrýni, þátttökuverk og sýningarstjórnun.
Hlynur Hallsson er fæddur á Akureyri 1968. Hann stundaði myndlistarnám á Akureyri, í Reykjavík, Hamborg, Düsseldorf og Hannover og lauk mastersnámi 1997. Hlynur hefur haldið yfir 60 einksýningar nú síðast í GalleriBOX á Akureyri með Jónu Hlíf Halldórsdóttur og í Malkasten í Düsseldorf. Hann hefur tekið þátt í meira en 80 samsýningum á síðustu árum nú síðast í "Læsi" í Nýlistasafninu og "Beyond Frontiers" hjá Kuckei+Kuckei í Berlín.