Hlynur: Frábært að fá svona byrjun

Hlynur Svan Eiríksson stjórnaði Þór/KA í fyrsta sinn í kvöld er liðið lagði Fylki 3:1 á Þórsvelli í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu. Fín byrjun hjá Hlyni sem fékk lítinn tíma með liði sínum fyrir leikinn í kvöld, en hann tók sem kunnugt er óvænt við liði Þórs/KA í gærkvöld af Viðari Sigurjónssyni. „Þetta var frábær sigur og ekki slæmt að byrja þetta svona,“ sagði Hlynur Svan í samtali við Vikudag eftir leikinn í kvöld. „Ég er þokkalega sáttur með spilamennskuna. Við reyndum að spila á eins hái tempói og við gátum og pressa þar framarlega. Það gekk ágætlega en við getum samt gert betur og komum til með að gera það," sagði hann. 

Hlynur hrósaði einnig liði Fylkis í kvöld sem átti fína spretti í leiknum.

„Þetta Fylkislið er fínt knattspyrnulið og það gerir sigurinn bara ennþá sætari. Það er frábært að fá svona byrjun,“ sagði Hlynur.

Jón Páll Pálmason, þjálfari Fylkis, var nokkuð sáttur við sitt lið þrátt fyrir tap í kvöld.

„Mér fannst liðið standa sig ágætlega í leiknum á köflum. Ég gerði hins vegar taktísk mistök á miðjunni sem ég lagaði svo í seinni hálfleik. Þórs/KA liðið yfirspilaði okkur á miðjunni þar sem við vorum ekki nógu þéttar og það er algjörlega mér að kenna. Við fórum hrikalega illa með góð færi í leiknum, við komumst t.d. tvisvar ein á móti markmanni en kúðrum í bæði skiptin. Það er dýrt,“ sagði Jón.

Fylkir sýndi flottan fótbolta á köflum í kvöld og ljóst að liðið getur vel strítt toppliðunum.

„Við erum búinn að spila við þrjú bestu liðin á landinu og það var alveg búist við því að byrjunin yrði erfið þótt ég hefði viljað hafa fleiri stig,“ sagði Jón, en Fylkir hefur eitt stig í næstneðsta sæti.

Nýjast