Hlý og notaleg stemning í Hofi

Það verður heilmikið um að vera í Menningarhúsinu Hofi um helgina. Allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi en á meðal dagskrárliða er ljósmyndasýning, klassískir tónleikar, kvikmyndasýning, útgáfutónleikar, töfrabragðasýning og margt fleira.

Í dag verður haldin alþjóðleg matarveisla í Hamragili þar sem hægt verður að smakka á kræsingum frá yfir tuttugu þjóðlöndum. Á sama tíma verður alþjóðlegt barnagaman í Nausti þar sem boðið verður uppá andlitsmálningu, leiki ofl. Í Hömrum verður sett upp lítið kaffihús þar sem syrpa Akureyrarkvikmynda frá Kvikmyndasafni Íslands verður sýnd. Á torginu fyrir utan Hof verður svo alþjóðlegur nytja og handverksmarkaður. Klukkan hálf tólf, að loknum tónleikum í Gilinu, verður opnað inní Hamraborg þar sem Hvanndalsbræður munu taka á móti gestum. Þekktir Akureyringar stíga á stokk með þeim bræðrum og flytja nokkur af þekktustu lögum hljómsveitarinnar og það má búast við að „Gestalistinn“ komi á óvart.

Á sunnudagsmorguninn klukkan ellefu eru börn og fjölskyldur þeirra boðin sérstaklega velkomin þegar að hinn frábæri töframaður Einar Mikael sýnir sjónhverfingar og kennir töfrabrögð.

Nýjast